Nýtt björgunarskip til Skagastrandar

Nýtt björgunarskip sem á að þjóna öllu Húnaflóasvæðinu kom til heimahafnar á Skagaströnd í gær sunndudaginn 10. apríl. Skipinu var siglt frá Reykjavík en þaðan hafði það komið með skipi frá Bretlandi en það var keypt frá Plymouth. Björgunarskipið sem er smíðað 1988 er  úr trefjaplasti og með yfirbyggingu úr áli. Í því eru tvær 500 hestafla Caterpillar vélar sem skila því á allt að 18 mílna hraða. Skipið er mjög vel útbúið sem björgunarskip, m.a. er léttabátur sem hægt er að sjósetja á auðveldan hátt. Hins vegar er eftir að setja nýjustu siglingtæki um borð í það svo sem sjálfstýringu og siglingatölvu.  

Við komuna til Skagastrandarhafnar gátu þeir sem óskuðu fengið að skoða skipið en fyrirhugað er að hafa formlega mótttöku eftir tvær til þrjár vikur og gefa skipinu nafn.  Eftir að lokið hefur verið við að ganga frá búnaði og öðru sem þarf að gera til að skipið teljist fullbúið er stefnt að því að fara í kynnisferð á hafnir við Húnaflóa.

Það er Bjögunarbátasjóður Húnaflóa og Landsbjörg sem kaupa skipið og munu sjá um rekstur þess í nánu samstarfi við Björgunarsveitina Strönd.

Umsjónarmaður með skipinu hefur verið ráðinn Guðmundur Björnsson.