Óperudraugurinn í Skagafirði

Ópera Skagafjarðar og Draumaraddir norðursins munu frumsýna óperuna Phantom of The Opera í Miðgarði á Sæluviku Skagfirðinga 1 mai nk. Verður þessi heimsfræga ópera sýnd í nýrri leikgerð Guðrúnar Ásmundsdóttur. 

Sýningin hefst uppi á háalofti í Convent Garden Óperunni í London. Þar er kona nokkur að leita í 200 ára gömlum leikmunu sem lent hafa þar, og gleymst í hirðuleysi, eftir að hin sögulega sýning á Óperunni Hannibal var leikin þar við húsið. Á frumsýningunni gerðust hræðilegir atburðir. Kristalsljósakróna hrundi niður á sviðsgólfið og morð voru framin því óperudraugurinn lék þar lausum hala á sínum tíma. 

Söngþyrstir  uppvakningar taka að birtast í rykgráma þessara annarlegu húsakynna. Og fá þeir nú loksins að syngja eftir 200 ára þögn. 

Konan sem þar birtist í leit sinni að fornum leikmunum er leikin af Margréti Ákadóttur. Einnig birtast uppvakningar og draugar með sjálfan Óperudrauginn í fararbroddi sem leikinn verður af stórsöngvaranum Michael Jón Clarke. Hans heittelskaða er leikin af Alexöndru Chernyshovu.

Ópera Skagafjarðar hefur vakið mikla athygli fyrir dirfsku og dug þar sem hún hefur sett upp í Skagafirði og sýnt La Traviata og Rigoletto, tvær af þekkstustu og erfiðustu óperum sögunnar og gert það með miklum sóma. Alexandra setti upp í samstarfi við aðra tvær stuttar óperur haustið 2009 sem voru síðan tilnefndar til áhorfendaverðlauna Grímunnar. 

Draumaraddir norðursins hafa verið starfræktar í tvö ár og hafa þegar vakið athygli fyrir sönggæði, skemmtilegt lagaval og almennan metnað í verki.
 
Alexandra Chernyshova hefur verið aðaldriffjöðrin í Óperu Skagafjarðar og Draumaradda norðursins og hefur tekist að innleiða nýjar víddir í tónlistarflóru á Norðurlandi vestra. Leikkonan Guðrún Ásmundsdóttir hefur verið Alexöndru innanhandar með leikstjórn og uppsetningum óperanna og verður hún einnig leikstjóri í Óperudraugnum.
 
 
Óperudraugurinn - hlutverk:
  • Einsöngvarar – Michael J. Clarke - baritón / Phantom, Alexandra Chernyshova - sópran / Christine, Ívar Helgason - tenór / Raul, Dagrún Ísabella Leifsdóttir, Snorri Snorrason, Gunnar Björn Jónsson, Sonja Hafsteinsdóttir og Inga Margrét Jónsdóttir
  • Fjórir hljóðfæraleikarar – Risto Laur / hljómborð, Kaldo Kiis / básúna, Rodrigo Lopez / trommur og Matti Saarinen / gítar.
  • Leikstjórar -  Guðrún Ásmundsdóttir og Alexandra Chernyshova
  • Kórar, Draumaraddir norðursins og kór Óperu Skagafjarðar
  • Leikarar – Margrét Ákadóttir, Helgi Thorarensen og Kristín Lundberg