Opið bréf til nýju sveitarstjórnarinnar á Skagaströnd

  Ágæta nýkjörna sveitarstjórn.

Í upphafi kjörtímabils þykir mér rétt að skrifa ykkur opið bréf þar sem ég greini frá nokkrum þáttum sem ég tel að betur megi fara í samfélagi okkar þar sem ykkur hefur nú verið treyst til forystu næstu 4 árin. Í þessu bréfi mun ég eingöngu fjalla um málefni  sem ég kalla umhverfismál en aðrir og þá afmarkaðri málaflokkar bíða næstu skrifa.

Margt er hér gott í þessum málaflokki og á undanförnum árum hefur ýmislegt verið vel gert bæði af einstaklingum og sveitarstjórn og mörg svæði og götur tekið miklum stakkaskiftum og sumar þeirra eru til fyrirmyndar en þó leynast víða brotin og ómáluð tréverk umhverfis lóðir. Án efa nægði að benda fólki á að gera hér bragarbót og líklegt að flestir tækju því vel. Íbúar á Skagaströnd vilja án efa hafa snyrtilegt í kringum sig en stundum lokast augun fyrir því augljósa. Sveitarfélagið á einnig þakkir skyldar fyrir hversu vel er hugsað um slátt og tiltekt á opnum svæðum í kauptúninu sem eru mörg.

Ef ég væri í ykkar sporum og nýkjörinn í sveitarstjórn myndi ég byrja á því að ....

Fasteignir og umhverfi þeirra.

Fara í bíltúr um þorpið og t.d. hefja ferðina á veginum upp á Höfðann bak við gamla frystihúsið og líta þar á útlit 2ja hæða fasteignar sem áður var notuð sem salthús og beitningaskúr. Þaðan myndi ég svo aka Bankastrætið og horfa þar á húsin númer 2 og 3 og 14 og spyrja mig hvort það sé ekki eitthvað að í stjórnsýslu sem ekki nær að hafa áhrif á að hér séu úrbætur gerðar, hvað þá þegar liðin eru 35 ár frá byggingu sumra fasteignanna án þess að frá þeim sé gengið eins og vera ber.

Síðan liggur beint við að halda niður Skagaveginn og staldra augnablik við framan við Grafarholt og halda síðan áfram og gefa sérstaklega gaum að norðurenda braggans sem fyrst er komið að og bera saman við útlit Skátabraggans sem er til fyrirmyndar.

Síðan væri upplagt að fara niður á Strandgötu og beygja til vinstri fram hjá fyrrum pakkhúsi Siggabúðar og líta á þakið á því húsi sem stingur mikið í stúf við annars þokkalega útlítandi fasteign. Svo myndi ég beygja inn á Mánabrautina og líta á umgengnina í kringum sum iðnaðarhúsin sem þar standa og spyrja sjálfan mig af hverju er t.d. ekki komið almennilegt port í kringum atvinnustarfsemi trésmíðaverkstæðisins.

Þegar hér væri komið sögu væri upplagt að aka upp að hesthúsahverfinu. Um tvær leiðir virðist einkum vera að ræða, þ.e. að aka göngu- og reiðveginn hjá Snorrabergjunum og hundsa alveg umferðamerkin sem sýna að það er óheimilt að aka þarna vélknúnum ökutækjum. Sumum virðist nefnilega leyfast árum saman að aka hér hvenær sem þeim dettur í hug og  ekkert hafið þið nýja fólkið í sveitarstjórninn gert í því að bæta hér úr þrátt fyrir að athygli ykkar hafi verið vakin á málinu. Þar sem við erum flest löghlýðið fólk sleppi ég þessari leið en fer þjóðveginn upp að hesthúsunum. Þar staldra ég við í smástund bara til að sjá hversu vel umhverfi og útlit hesthúss formanns hestamannafélagsins sker sig frá útliti og umhverfi annarra húsa í hverfinu sem seint verða talin til fyrirmyndar.

Ég enda svo för mína að þessu sinni á Fjörubraut og Vallarbraut þar sem rétt væri að velta fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að fá alla eigendur iðnaðarhúsanna á þessu svæði til skrafs og ráðgerða um það hvort þeir væru ekki til í sameiginlegt átak til að bæta útlit þessa hverfis og jafnvel bjóða þeim að gerð yrði tillaga og teikningar varðandi úrbætur t.d. skjólveggi eða annað þess háttar.

Ég sleppi alveg að minnast á öll húsin sem sveitarfélagið á en þau eru í mjög misjöfnu ásigkomulagi. Mér virðist nefnilega að sveitarfélagið hafi á undanförnum árum verið að vinna markvisst og myndarlega í viðhaldi þeirra en íbúðirnar eru margar og því tekur þetta sinn tíma. En sem nýr sveitarstjórnarmaður myndi ég samt skoða útlit þeirra og athuga hvort það sé ekki örugglega á framkvæmdaáætlun að halda áfram viðhaldsframkvæmdum því sumar eignirnar kalla nokkuð stíft á aðgerðir.

Ef þið í sveitarstjórninni færuð svo saman í skoðunarferð um þorpið með opin augu þá eru fleiri eignir og umhverfi þeirra sem þarfnast aðgerða og væri liður i því að gera byggðina meira aðlaðandi. Ég er bara að reyna að koma ykkur á stað með fyrrgreindum ábendingum.

 

Til er reglugerð sveitarstjórnar frá 28. febrúar 2011 og einnig sérstök verklýsing á þvingunarúrræðum frá árinu 2012 gagnvart þeim fasteignaeigendum sem ekki hirða um að hafa hús sín og umhverfi í almennilegu standi og því skortir ekki verkfærin til aðgerða. Einhver bréf hafa líklega verið skrifuð en ef þeim er ekki fylgt eftir af sveitarstjórn þá er betra að láta slík skrif órituð.

 

Bílflökin í þorpinu.

Sama reglugerð, frá 28. febrúar 2011, tekur á aðgerðum vegna ónýtra bíla, bílflaka og á ýmiskonar drasli sem finna má sums staðar í þorpinu og liggur árum saman óhreyft. Ekki verður séð að mikill vilji hafi verið til að láta reglugerðina koma til framkvæmda því ella væru allir frestir eigenda löngu liðnir og búið að fjarlægja viðkomandi hluti á kostnað þeirra. Hér er samt ekki um mörg dæmi að ræða. Hvers vegna þarf þetta að vera svona? Af hverju er ekkert gert? Væri ekki rétt að skoða málið strax og kannski nægir bara að tala við suma þeirra sem hér eiga hlut að máli.

Að lokum.

Báðir listarnir sem buðu hér fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum lögðu áherslu á umhverfismál.  Þess vegna ættu fulltrúar þeirra að sýna nú þegar hvað í þeim býr. Ég er að vona að strax verði tekið til höndum varðandi þau atriði sem ég geri að umtalsefni í þessu opna bréfi. Það á ekki að bíða næsta árs heldur hefjast handa strax og fylgja ákvörðunum eftir  því annars tekur við nýtt ár án aðgerða og svo annað og svo eitt í viðbót eins og sumar umræddar ábendingar bera glöggt vitni um.

 

Í fullri hreinskilni, ágæta sveitarstjórnarfólk, þá finnst mér líklegt að lítið verði aðhafst og áfram verði sami hægagangurinn á þessu sviði – en – aldrei þessu vant - vona ég innilega að ég hafi rangt fyrir mér.

Góð kveðja og ósk um gæfurík störf í þágu Skagastrandar.

Lárus Ægir.