Opið hús í Nes listamiðstöð 21. febrúar kl 17-19

Þeir listamenn sem dvelja nú í Nes listamiðstöð sýna afrakstur vinnu sinnar þriðjudaginn 21. febrúar, kl. 17:00 – 19:00.  Með því að nota margvíslega miðlunartækni, eins og málverk, myndbönd, innsetningar, vefnað og ljósmyndun, þá munu listamennirnir breyta Nes listamiðstöð í sýningarsal og sýna jafnt fullunnin verk og verk í vinnslu.

 

Sumir listamannanna hafa í verkum sínum tekið mið af umhverfi Skagastrandar og nágrenni, sagnaarfinum og samfélagi. Hollenska listakonan AnneMarie van Splunter er að ljúka við heimildarmynd um leikskólann á Skagaströnd, bandaríski listamaðurinn Liz Hope Layton hefur unnið málverk og myndband út frá sögunni um Þórdísi spákonu og ítalska listakonan Barbara Gamper skoðar staðarímynd og sjálfsmynd á Íslandi. Fransk-spænski listamaðurinn Luis Miguel Dominguez málar landslag með bleki á 10 metra langan pappír, mexíkóski listamaðurinn Christian Castañeda Vázquez vinnur að teikningum sem byggja á íslenskum goðsögnum og þýska listakonan Christin Lutze nýtir sér litróf íslenska vetrarins í málverkum sínum. Sid Blevens stundar tónsmíðar á meðan Elsa di Venosa og Hugo Deverchère frá Frakklandi búa til myndband, þar sem þau skoða úr lofti hið tunglkennda landslag Íslands.

 

 „Með sífelldan vindinn utandyra hefur Nes listamiðstöð verið vinnustaður okkar nánast allan sólarhringinn þessar vikur. Það hefur verið dýrmæt reynsla fyrir okkur að vinna klukkustundum saman í björtu og rúmgóðu vinnuhúsnæðinu og ganga síðan út um dyrnar í éljaganginn og snjóinn sem ekki var hér í morgun. Á hverjum degi eru landslagið, fjöllin, hafið og láglendið, síbreytileg í litum og ásýnd.

 

Maður verður að vera ansi dofinn til að verða ekki fyrir áhrifum af þróttmikilli náttúrunni  - myrkrinu og litum norðurljósanna. Ef vindurinn verður of mikill þá grípum við í næsta ljósastaur og ef skyggnið er aðeins einn metri, þegar við leggjum af stað heim, þá snúum við bara aftur til listamiðstöðvarinnar. Það er nægur matur í ísskápnum, nóg af teppum og nokkrir sófar. Við gætum dvalið í eina eða tvær vikur í listamiðstöðinni ef við þyrftum. Við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur.“

 

AnneMarie van Splunter, Holland

Barbara Gamper, Ítalía/Bretland

Christian Castañeda Vázquez, Mexíkó

Christin Lutze, Þýskaland

Claire Pendrigh, Ástralía

Connie Dekker, Holland

Elsa di Venosa, Frakkland

Hugo Deverchère, Frakkland

Liz Hope Layton, USA

Sid Blevins, USA

Luis Miguel Dominguez, Frakkland

Sigbjørn Bratlie, Noregur