Opið hús listamanna og alþjóðlega listsýning Solitude

Í Nesi listamiðstöð á Skagastönd dvöldu þrettán listamenn í júlí. Þeir verða með opið hús föstudaginn 24. júlí frá kl 20:00 – 22:00 og er öllum boðið að líta inn.

Þar verður hægt að skoða það sem listamennirnir hafa verið að vinna að og spjalla við þau og aðra um verkin. 

Þeir sem sýna verk sín að þessu sinni eru: 

  • Bernadette Reiter
  • Adriane Wacholz
  • Kreh Mellick
  • Ashley Lamb
  • Hanneriina Moisseinen
  • Mia Damberg
  • Bodil Steinsund
  • Christopher Garcia
  • Reinhard Buch
  • Hiroko Tanahashi
  • Caroline Kent
  • Jennie Moran

Til sýnis verða málverk, teikningar, hljóðverk, keramik, vídeóverk, myndir frá súkkulaðiskúlptúr vinnslu og fleira. 

Einnig verða verk nokkurra barna til sýnis en þau Bodil Steinsund og Christopher Garcia héldu leirlistanámskeið í mánuðinum þar sem börnin unnu með álfa og landvætti.

Á sama tíma er sýningin SOLITUDE, opin í nýjum sýningarsal Ness í Gamla kaupfélaginu. Myndlistarsýningin, er sett upp af Nesi Listamiðstöð á Skagaströnd í samvinnu við Neues Kunsthaus Ahrenshoop og Kunstlerhaus Lukas og er samsýning listamanna frá Íslandi, Lettlandi og Þýskalandi. 

Listamennirnir unnu allir út frá ljóðum skálda frá þessum löndum og íslensku skáldin sem listamennirnir leggja út frá eru Steinunn Sigurðardóttir og Andri Snær Magnason. 

Fulltrúar Íslands á sýningunni eru Ragnhildur Stefánsdóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir og Jeannette Castioni. 

Verkin á sýningunni eru afkvæmi spurninga á borð við: ,,Er draumastaður mannsins ennþá til, þar sem hann getur notið einveru, unaðar og hvíldar?“  og ,,Hvernig geta listir stuðlað að meðvitaðri umgengni við náttúruna?

Sýningin er opin um helgar frá kl. 13:00 – 17:00 og virka daga eftir samkomulagi í síma 663-3757 og stendur til 30. ágúst. 

Þessi glæsilega myndlistarsýning er styrkt af  Menningarráði Norðurlands vestra, Fisk Seafood á Sauðárkróki og Minningarsjóði um hjónin frá Garði og Vindhæli.