Opnun Spákonuhofs

Menningarfélagið Spákonuarfur á Skagaströnd opnaði í gær Spákonuhof sitt sem hefur verið í uppbyggingu frá því á síðasta ári. Fjölmenni var við opnunina og var gerður góður rómur að glæsilegri aðstöðu og sýningunni sem þar hefur verið sett upp. 

Spákonuhofið hýsir sýningu sem tileinkuð er Þórdísi spákonu en hún var fyrsti nafngreindi landnámsmaðurinn á Skagaströnd. Hennar er minnst m.a. með afsteypu af sögupersónunni sem stendur við hús sitt, refli sem segir sögu Þórdísar auk annara leikmuna sem tengjast sögu hennar. Með leikmunum og texta er einnig reynt að varpa ljósi á ýmsar spáaðferðir. Börn geta átt góðar stundir með sögupúsluspilum og fleiru.

 Á tjaldi má m.a. sjá upptöku af leiksýningunni Þórdís spákona sem Spákonuarfur setti á svið árið 2008. Síðast en ekki síst eru fjórir spáklefar sem hver og einn er innréttaður á sinn hátt. Þar má fá spár,hvort sem um er að ræða hefðbundna spilaspá, tarrotspilaspá, bollaspá, lófalestur eða að láta kasta rúnum fyrir sig.

Í fremra rýminu er sögu hússins sýndur sómi m.a. með gömlum ljósmyndum en húsið var samkomuhús bæjarbúa á árunum 1946-1969. Þar er einnig  sölusýning á teikningum Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar sem allar tengjast sögu Þórdísar spákonu. Margs konar handverk er einnig  til sölu.

Spákonuhofið er opið alla daga nema mánudag frá kl. 11-17.