Orlofsferð húsmæðra

Helgina 9.-11. mars fóru 39 húnvetnskar húsmæður í skemmti og menningarferð til Reykjavíkur.

Lagt var af stað frá Skagaströnd klukkan 17:30 og voru konur teknar uppí á leiðinni við hina ýmsu afleggjara.

Komið var í bæinn um klukkan 23:00, það var hinn knái bílstjóri, Ágúst Sigurðsson frá Geitaskarði sem keyrði þennann káta hóp þessa ferð. Einhverjar fóru á Sálarball á Players en aðrar höfðu það notalegt upp á hóteli það sem eftir lifði kvölds.

 

Snemma á laugardagsmorgun var farið í nudd, heita potta, sauna og gufu í Mecca SPA ásamt því að gæða sér á góðum ávöxtum og samlokum. 

Því næst var frjáls tími til klukkan 15:30 þá hittumst við allar í sal fengum okkur pitsu í “miðdegishressingu”. Heiðar Jónsson snyrtir mætti svo “óvænt” og sagði okkur hvernig við áttum að láta taka eftir okkur, daðra, klæðast og snyrta okkur. Einnig las hann í rithönd og augnhimnur nokkurra kvenna.

 

Eftir það streymdi svo hópurinn á Broadway í sínu fínasta pússi

og hlýddi á magnaða Tinu Turner sýningu og var svo mikið stuð á hópnum að hann var dansandi upp á stólunum og borðum.

Einhverjar skruppu síðan á diskótek á Hressó á eftir.

 

Daginn eftir var síðan skundað upp í Smáralind, verslað og kíkt á kaffihús áður en haldið var heim á leið. Þetta var alveg með eindæmum skemmtileg ferð og alveg víst að Húnvetnskar húsmæður kunna að gera sér glaðan dag!

                              Orlofsnefnd A-Hún

                         Linda Björk og Vígdís Elva