Pistill frá Lárusi Ægi Guðmundssyni

 

Gagnslaus tillaga sveitarstjórnar

Fyrir nokkrum árum var útbúinn göngu- og reiðvegur sem liggur frá svonefndum Löngubergjum (Snorrabergjum) og upp að hesthúsunum neðan við þjóðveginn út á Skaga. Svo sem vera ber voru sett merki við báða enda vegarins sem banna umferð bifreiða enda almennt ekki talið að sú umferð fari vel saman við ferðir göngufólks og þeirra sem eru í útreiðartúrum á  hestum sínum.

Alla tíð hafa umferðarmerkin verið að engu höfð af nokkrum mönnum sem aka þarna hvenær sem þeim dettur í hug. Svo virðist sem fyrri sveitarstjórn hafi verið sér þessa meðvitandi því hún samþykkti loksins á fundi sínum 15. nóvember 2013 þá bráðsnjöllu lausn á vandanum að setja inn á vefinn – skagastrond.is – auglýsingu um að það mætti ekki aka þessa leið á bifreiðum.

Sumir af þeim sem þarna aka um hafa aldrei sett fingur á tölvu, eiga hana jafnvel ekki í fórum sínum og lesa því ekki þessa auglýsingu sem kannski hefur hangið inni á forsíðunni í eina viku. Hélt sveitarstjórnin virkilega að ef þessir menn virða ekki einu sinni umferðarmerkin þá væri þetta lausnin? – Hvílík snilld.

Lausnin á þessu vandamáli er ekki flókin. Hún er raunar svo einföld sem að setja sæmilega stóran stein við enda/upphaf vegarins við hesthúsahverfið sem hindrar bílaumferð en ekki ferðir gangandi fólks og reiðmanna.

Ég vona að nýja sveitarstjórnin nái að hrinda þessu – ekki svo viðamikla verkefni – í framkvæmd á næstu dögum.

LÆG

 

Hvers eiga gluggarnir að gjalda?

Fyrir nokkrum misserum voru gluggarnir á þeirri hlið Fellsborgar sem snýr að þjóðveginum málaðir hvítir – allir nema tveir -  þeir voru skildir eftir ómálaðir og enginn veit hversvegna. Þrátt fyrir að langur tími sé nú liðinn frá þeirri gjörð voru þeir aldrei teknir í sátt af fyrri hreppsnefnd sem horfði á þetta misserum saman án aðgerða. Þetta hirðuleysi, þrátt fyrir ábendingar um að bæta hér úr, lýtir mjög götuhlið Fellsborgar.

Það er von mín að sveitarstjórinn komi að máli við húsvörðinn í Fellsborg en þeir vinna á sama vinnustaðnum og saman leiti þeir leiða til að hrinda þessu verkefni í framkvæmd en reikna má með að það geti tekið allt að einni klukkustund.

LÆG