Pistill frá Lárusi Ægi Guðmundssyni

 

Mun Höfðinn „týnast“?

Hvað ætlar nýja sveitarstjórnin að gera?

Á Höfðanum er afar fallegt útivistarsvæði eins og Skagstrendingum er vel kunnugt. Allskonar gróður er þar að finna ásamt töluverðu fuglalífi og afar sérstakri bergmyndun víðast hvar.

En ákveðið vandamál er að búa um sig á Höfðanum. Lúpínan er komin þangað og á hverju ári leggur hún undir sig meira og meira svæði. Ég býst ekki við að það sé hægt að ráða við hana í hlíðinni við Réttarholt en það má stöðva hana þar. En á hinn bóginn er hún farin að dreifa sér víða annarsstaðar um Höfðann. Á flestum stöðum er hún þó á afar takmörkuðum svæðum og sumsstaðar bara eitt og eitt blóm en þeim fjölgar ár frá ári og byrja að mynda stærri flekki.

Það er ekki auðvelt að hamla vexti og útbreiðslu lúpínu en það er hægt en til þess þarf markvissar aðgerðir sem þurfa að standa yfir í nokkur ár. Á nokkrum friðuðum svæðum á Íslandi hafa menn háð harða glímu við lúpínuna m.a. í þjóðgarðinum í Skaftafelli og nokkur sveitarfélög eru líka í þessari baráttu.

Ef ekkert verður að gert mun lúpínan leggja undir sig og kæfa allan núverandi gróður á Höfðanum. Þá mun þessi fallega útivistarparadís glata mörgum sérkennum sínum auk þess sem Höfðinn verður ekki auðveldur yfirferðar eins og þeir vita sem ganga á þeim svæðum sem lúpínan hefur yfirtekið.

Það þarf að rífa lúpínuna upp með rótum þar sem hún er að byrja að nema land. Einnig að halda áfram að slá þau svæði þar sem hún hefur myndað flekki en það hefur verið gert í nokkur ár. Þessir flekkir stækka samt og það þarf að öllum líkindum að eitra þar líka.

Enn er sá tími að það má koma í veg fyrir að lúpínan eyðileggi náttúrufegurð Höfðans. Verði brugðist við strax má uppræta hana og bjarga Höfðanum.

Ég legg til að sveitarstjórnin ákveði nú þegar stefnu til 4ra ára þar sem markvisst verði tekið á þessu máli og byrjað strax í ár. Það væri t.d. hægt að setja á stofn 3ja manna vinnuhóp sem í umboði sveitarstjórnar myndi kynna sér allt sem viðkemur árangurríkum aðferðum til eyðingar lúpínu og hefði jafnframt frumkvæði og ábyrgð á því að málið verði tekið föstum tökum.

Fegurð og útivistargildi Höfðans er í stórhættu. Það þarf að bregðast við strax.

LÆG