Rauði krossinn leitar eftir heimsóknavinum

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar Rauða krossins sem yfirleitt heimsækja gestgjafa sína einu sinni í viku, klukkustund í senn. Þeir sem heimsækja eru karlar og konur, ungir og aldnir, allt fólk sem er tilbúið að gefa tíma sinn til að gleðja aðra. 

Það fer svolítið eftir áhugamálum og aðstæðum þess sem heimsóttur er, hvernig gestgjafi og heimsóknavinur verja tímanum saman. Sumir vilja bara spjalla um daginn og veginn, aðrir hlusta á lestur úr góðum bókum, spila eða fara í gönguferð, svo eitthvað sé nefnt,  allt eftir því hvað gestgjafi og heimsóknavinur koma sér saman um.

Heimsóknir eru meðal annars á heimili fólks, dvalarheimili, sjúkrahús eða sambýli, auk þess sem einnig eru starfandi svokallaðir ökuvinir, sem bjóða gestgjafa sínum í bíltúr í stað heimsóknar á heimili. Einnig bjóða nokkrar deildir upp á heimsóknir með hunda.

Heimsóknavinur þarf að hafa gaman af því að umgangast fólk, vera traustur og áreiðanlegur og kunna að hlusta á aðra. 

Undanfari heimsóknavina, voru svokallaðir sjúkravinir sem hófu heimsóknir um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, en verkefnið í þeirri mynd sem nú starfar, hófst árið 2001.   

Þeir sem vilja gerast heimsóknavinir þurfa að sækja undirbúningsnámskeið sem haldin eru hjá deildum Rauða krossins víða um land. Á námskeiðinu er fyrst farið í stuttu máli yfir stöðu og markmið verkefnisins, en síðan er farið yfir hlutverk heimsóknavina og þær reglur sem unnið eftir. Heimsóknavinum stendur einnig til boða fjölbreytt fræðsla, námskeið og handleiðsla eftir að þeir taka til starfa og hefja heimsóknir.

Þeir sem hafa áhuga á að gerast heimsóknavinir eru hvattir til að hafa samband við Sigrúnu í síma 897-2884. Námskeið fyrir heimsóknarvini verður haldið á Blönduósi þriðjudaginn 24. febrúar og er skráning og frekari upplýsingar hjá Sigrúnu í ofangreindu símanúmeri.