Samningur um ljósleiðara á Skagaströnd

 Samhliða lagningu dreifikerfis hitaveitu um Skagaströnd verður lagður ljósleiðari í öll hús sem tengjast hitaveitunni.

Samningur um lagningu og reksturs ljósleiðara á Skagaströnd var undirritaður milli Mílu og Sveitarfélagsins Skagaströnd í elsta húsi bæjarins, Árnesi 10. maí síðastliðinn.

Með samningnum og lagningu ljósleiðarans eru viss tímamót framundan í fjarskiptamálum á Skagaströnd þar sem ljósleiðarinn mun bjóða upp á betri margmiðlunarsamskipti.

Samningurinn byggir á ákvæði í samning við RARIK um að leggja hitaveitulagnir í öll hús í þéttbýli á  Skagaströnd og innifalið í þeim samningi er að RARIK muni láta leggja ljósleiðarakerfi í lagnaskurði hitaveitulagna fyrir sveitarfélagið. Með samninginum framselur sveitarfélagið þann rétt til Mílu sem mun leggja til hönnun og efni í ljósleiðarakerfi í skurðina. Míla mun síðan eiga og reka kerfið sem opið aðgangsnet. Í samningnum kemur fram að aðgangur að ljósleiðaraheimtaugum Mílu verður opinn öllum þjónustuveitendum sem uppfylla almenn skilyrði gildandi laga um fjarskiptaleyfi á sömu kjörum og almennt gilda.  Áætlað er að fyrstu húsin í bænum verði síðan tengd ljósleiðaranum í byrjun næsta árs.

Það voru þeir Ingvar Hjaltalín Jóhannesson forstöðumaður hjá Mílu og Adolf H. Berndsen oddviti á Skagaströnd sem undirrituðu samninginn fyrir hönd umbjóðenda sinna.