Samningur við Háskólann undirritaður

Undirritaður hefur verið samningur milli Sveitarfélagsins Skagastrandar og Háskóla Íslands um þriggja ára uppbyggingu rannsókna- og fræðaseturs á Skagaströnd.

Það er Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands og Miðstöð munnlegrar sögu sem standa að samningnum.

Setrið heitir Rannsókna- og fræðsetur HÍ á Norðurlandi vestra og verður væntanlega í daglegu tali nefnt Fræðasetrið

Markmiðið með því eru þessi:

  • Að verða öflug rannsóknastöð um sagnfræði, einkum á sviði munnlegrar sögu og samtímasögu á Norðurlandi vestra.
  • Að vera starfsvettvangur fræðimanna sem m.a. koma frá samstarfsaðilum setursins.
  • Að innleiða nýja hugsun, tækni og vinnubrögð í menntun og þróunarstarfi á Norðurlandi vestra og stuðla að samstarfi menningarstofnana á svæðinu.
  • Að fá til lengri eða skemmri dvalar fræði- og vísindamenn sem jafnframt því að stunda ritstörf eða rannsóknir koma að menningu, menntun eða þjónustu á svæðinu.
  • Að stuðla að háskólakennslu á Norðurlandi vestra í samstarfi við menntastofnanir.

Sérsviði Fræðasetursins er munnleg saga þar sem áhersla er lögð á söfnun, skráningu, varðveislu og rannsóknir á munnlegum heimildum.

Á aukafjárlögum 2008 var samþykkt 9 milljón króna framlag til stofnunar Fræðasetursins skv. tillögum Norðvesturnefndar 2008. Gert er ráð fyrir að hliðstætt framlag komi áfram á fjárlögum á samningstímanum og er það forsenda rekstursins.

Framlag samningsaðila verður sem hér segir fyrstu þrjú ár samningsins:

  1. Háskóli Íslands rekur setrið sem hluta af Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands. Hann leggur til almenna þjónustu og aðgengi að stjórnsýslu og faglegri þekkingu Stofnunar fræðasetra HÍ og Háskóla Íslands.
  2. Miðstöð munnlegrar sögu leggur fram sérþekkingu og gögn á sviði munnlegrar sögu og munnlegra heimild, faglega aðstoð við undirbúning og framkvæmd verkefna og vinnur með Fræðasetrinu að öflun og úrvinnslu söfnunarverkefna.
  3. Sveitarfélagið Skagaströnd leggur til fjárframlag til niðurgreiðslu húsnæðis og stofnkostnaðar.

Samingurinn var undirritaður af Rögnvaldi Ólafssyni fyrir hönd Stofnunar Fræðasetra HÍ og Adolf H. Berndsen, Sveitarfélaginu Skagaströnd. 

Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritunina.