Síðasti skiladagur í samkeppnina er 1. júlí.

Síðasti skiladagurinn í ljósmyndasýningu Skagastrandar er 1. júlí. Því er  nú ástæða fyrir fólk að taka myndavél sér í hönd og halda út í yndisfagurt sumarið og taka myndir af Skagaströnd í nýju ljósi.

Munum að tilgangurinn með samkeppninni er að safna saman 20 myndum sem síðan verða stækkaðar í 2x1,2 m og settar upp utan dyra á Hnappstaðatúni sem er í miðjum bænum. 

Tilgangurinn með er að lífga upp á miðbæ Skagastrandar og jafnframt að vekja athygli ferðamanna á einstökum stöðum sem og náttúruminjum í sveitarfélaginu.

Myndirnar skulu teknar innan Sveitarfélagsins Skagastrandar, utan eða innan bæjar. Sjónarhornið er byggðin, mannlífið eða náttúran. Leitað er eftir fallegum myndum eða sérkennilegum og áhugaverðum myndefnum eða sjónarhornum.

Ekki er þó um hefðbundna ljósmyndasamkeppi að ræða enda engin verðlaun veitt önnur en þau að fá mynd sína birta í stóru formati og að ljósmyndarinn fær að eiga myndina að sýningu lokinni.

Í dómnefndinni eiga þessir sæti: Jón Sigurðsson, umboðsmaður TM og ljósmyndari, Skarphéðinn H. Einarsson, skólastjóri, og Snorri Gunnarsson, ljósmyndari. Henni til aðstoðar er Sigurður Sigurðarson, starfsmaður Sveitarfélagsins Skagastrandar.

Reglur samkeppninnar eru þessar:
  1. Einungis myndir eftir áhugaljósmyndara verða birtar á ljósmyndasýningunni „Skagaströnd í nýju ljósi“ sem haldin verður á Hnappstaðatúni sumarið 2010. Þátttaka er öllum heimili, Íslendingum sem og öðrum.
  2. Myndefnið skal vera frá Skagaströnd, utan eða innan þéttbýlisins, og vera af byggð, mannlífi eða náttúru. Því ber að vera áhugavert eða sérkennilegt af einhverju tagi. 
  3. Myndirnar mega vera í lit eða svarthvítar, en skilyrði að þær séu í góðri upplausn og á jpg formi. Leyfilegt er að skanna inn framkallaðar myndir eða filmur og senda í keppnina.
  4. Engin verðlaun verða veitt fyrir þær myndir sem valdar eru, en viðkomandi ljósmyndari fær stækkaða mynd sína til eignar að sýningu lokinni.
  5. Skilafrestur á myndum er til og með 1. júlí 2010. 
  6. Hver þátttakandi má senda inn allt að 10 myndir sem hann hefur tekið sjálfur. Aldur myndanna skiptir engu máli. 
  7. Myndum skal skila í tölvupósti á radgjafi@skagastrond.is eða á diski eða minnislykli ásamt grunnupplýsingum um ljósmyndarann á skrifstofu sveitarfélagsins. 
  8. Ljósmyndir eru valdar eftir tillögum dómnefndar og leitast við að hafa sem breiðast úrval myndefnis og ljósmyndara.
  9. Myndir á sýningunni verða með myndatexta sem unninn er í samráði við eiganda og nafn hans verður einnig prentað á myndina.
Sveitarfélagið Skagaströnd stendur fyrir ljósmyndasýningunni í samstarfi við Menningarráð Norðurlands vestra.