Síðasti skiladagur ljósmynda er á morgun

Nú þegar hafa nákvæmlega 99 myndir borist í ljósmyndasamkeppni Sveitarfélagsins Skagastrandar en leitað er eftir myndum sem birtar verða í stóru formati á Hnappstaðatúni í miðbænum.

Allt eru þetta myndir sem uppfylla skilyrðið sem gefið var í upphafi og fjallar um að sýna „Skagaströnd í nýju ljósi“.

Margar myndanna sem borist hafa eru afar skemmtilega teknar. Fjölmargir hafa lagt sig í líma við að finna áhugaverða hliðar á bænum og umnverfi hans. til eru þeir sem hafa beinlínis lagt land undir fót, tekið myndir sérstaklega fyrir samkeppnina. Aðrir hafa leitað í myndasöfnum sínum og valið skárstu myndirnar.  Mörgum er Spákonufellið hugstætt, aðrir líta á veðrabrigðin og svo hafa borist myndir af sólarlagi við Húnaflóa.

Ekki eru allir þátttakendur búsettir á Skagaströnd. Fréttir af samkeppninni hafa flogið víða. Síðast í morgun bárust til dæmis myndir frá Íslendingi búsettum í Danmörku.

Minnt er á að skilafrestur mynda er fyrir miðnætti miðvikudaginn 1. júlí. Senda ber myndirnar á netfangið radgjafi@skagastrond.is. Einnig má koma með myndir brenndar á disk eða á minnislykli og skila á skrifstofu sveitarfélagsins.