Síðbúnar bollu- sprengi- og öskudags myndir frá Barnabóli

Að venju var haldið í hefðir bræðranna þriggja, bollu- sprengi- og öskudags. Börnin bjuggu til bolluvendi sem þau höfðu með sér heima til að geta bollað mömmur og pabba með eldsnemma á bolludagsmorgni. Í leikskólanum fengu allir bollur með rjóma, sultu og súkkulaði. Í hádegi á þriðjudegi fengu börnin saltkjöt og baunir, allir urðu að smakka, sumir hámuðu í sig súpu og kjöt en aðrir létu sér nægja kjöt og kartöflur. Öskudagur er síðastur í röðinni, en sá er skemmtilegastur þeirra bræðra, a.m.k í augum barnanna.„ Þá fær maður að klæða sig í búning og koma með sverð í leikskólann“ sagði ungur maður. „ Já, og mála sig í framan“ sagði annar. „Ég ætla að vera risaeðla“ tilkynnti sá þriðji. Börnin örkuðu um þorpið og sungu fyrir fólkið, en alltaf er byrjað á því að syngja fyrir eldri borgarana á Sæborg, sem bíða með eftirvæntingu eftir börnunum. Við vorum líka svo heppin með veðrið að þessu sinni en komið hefur fyrir að öskudagssönginn hefur þurft að slá af vegna tillitsleysis veðurguðanna. Helga Bergsdóttir leikskólastjóri