Sigraði í myndakeppni UMFÍ

 Ástríður Helga Magnúsdóttir á Skagaströnd bar sigur úr býtum í myndakeppni Ungmennafélags Íslands á Unglingalandsmótinu í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Ástríður Helga fékk afhentan glæsilegan iPhone 6S Plus síma frá versluninni Epli í síðustu viku. Hún tók sigurmyndina á síðasta degi mótsins og sýnir hún tvær vinkonur horfa saman á flugeldasýninguna að lokinni síðustu kvöldvökunni. Myndin endurspeglar þá vináttu sem einkennir mótið, að mati dómnefndar.

Sagt er frá þessu á vef UMFÍ. Á meðfylgjandi mynd er Ástríður með Ómari Braga Stefánssyni, landsfulltrúa UMFÍ og framkvæmdastjóra landsmóta UMFÍ.

Frétt af www.huni.is