Sjö styrkir Menningarráðs til Skagastrandar

Mikil menningarstarfsemi hefur ávallt einkennt Skagaströnd og miðað við það sem unnið er að í bænum verður svo áfram um nánustu framtíð. Í gær afhenti Menningarráð Norðurlands vestra 51 aðila í landshlutanum verkefnastyrki að fjáræð 17,5 milljónir króna.

Sjö aðilar á Skagaströnd fengu styrki og þeir eru:

Menningarfélagið Spákonuarfur hlaut 1,2 milljónir króna.
Félagið hefur á undanförnum árum unnið að því að varðveita minningu Þórdísar spákonu og verða miðstöð spádóma á landinu. Undanfarnar kántrýhátíðir hafa þær boðið upp á spádóma og hefur biðröðin náð langt út á götu.

Nú hefur félaginu áskotnast húsnæði undir framtíðarstarfsemi sína og verið er að breyta því að innanverðu. Jafnframt hefur verið gerður samningur við hönnuði Sögusafnsins í Perlunni, Ágústu og Ernst Backman um að hanna Spákonuhofið og sjá um uppsetningu leikmyndar og sýningar í Þórdísarstofu. Stefnt er að opnun Spádómshofsins í júní á næsta ári.

Kántrýbær hlaut 1,0 milljónir króna.
Kántrýbær þykir er einstakur. Þar er miðstöð kántrýmenningar á Íslandi og þar rekur kántrýkóngurinn kántrýútvarpið sitt. Nú verður í vetur sett upp kántrýsetur með uppsetningu sýningar um sögu og tónlist kántrýkóngsins, um sveitatónlist almennt, íslenska og ameríska.

Gerður hefur verið samningur við Björn Björnsson leikmyndahönnuð um hönnun sýningarinnar og umsjón með uppsetningu og verður Kántrýsetrið opnað í júní á næsta ári.

Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra hlaut 500 þúsund krónur.
Aðeins er tæpt ár síðan að Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tók til starfa á Skagaströnd en meginhlutverk þess eru rannsóknir og fræðsla á svið sagnfræði. 

Einn af meginþáttum fræðasetursins er geymd munnlegrar sögu. Víða á söfnum, t.d. í Héraðsskjalasafninu á Hvammstanga, eru til segulbandsspólur með viðtölum og frásögnum heimamanna sem liggja þar óhreyfðar árum og áratugum saman en þar er geysimikill fróðleikur um fyrri tíma varðveittur.

Fræðasetrið fær styrk til að hefja það verkefni að koma þessum upptökum á varanlegt form, skrá upplýsingarnar sem þar eru og gera þær aðgengilegar almenningi.

Nes listamiðstöðin hlaut 400 þúsund krónur. 
Hún tók til starfa í júní 2008 en þetta er alþjóðleg listamiðstöð þar sem listamenn hvaðanæva úr heiminum vinna að list sinni í einn mánuð í senn eða fleiri. Á þessum rúmum tveimur árum hafa á þriðja hundrað listamenn starfað í lengri eða skemmri tíma.

Frá upphafi hefur listamiðstöðin boðið upp á litla dvalar- og verkefnastyrki sem hafa reynst töluvert aðdráttarafl. Í staðinn fyrir styrkinn þarf listamaðurinn að skila einhverju af sér til samfélagsins, s.s. í formi listaverks, sýningar, tónleika, fyrirlestra, heimsókna í skólann o.s.frv.

Sveitarfélagið Skagaströnd hlaut 200 þúsund krónur. 
Það fær styrk til að standa fyrir yfirlitssýningu á verkum listmálarans Sveinbjörns H. Blöndals í júní á næsta ári.

Sveinbjörn var ættaður frá Siglufirði en bjó og starfaði lengst af á Skagaströnd. Hann lést í apríl sl. Landslagsmyndir voru eftirlætisverk Sveinbjörns en einnig málaði hann myndir af fuglum, fólki, bátum o.fl. Þá eru til eftir hann fjöldi skopmynda. 

Línudansaklúbbur Skagastrandar hlaut 200 þúsund króna styrk. 
Hann er fimmtán ára um þessar mundir en félagið hefur staðið fyrir dansæfingum og sýningum öll þessi ár auk þess að taka öðru hvoru þátt bikar- og Íslandsmeistaramótum í línudansi.

Nú ætlar félagið að standa fyrir línudansahátíð í júní næsta sumar í höfuðstað kántrýmenningarinnar á Íslandi og fær hér til þess styrk.

Fjórir aðilar þar á meðal einn frá Skagaströnd fá sameiginlega 100 þúsund króna styrk.
Kór Blönduósskirkju, kór Hólaneskirkju, Samkórinn Björk og Tónlistarskóli A-Hún. ætla að standa fyrir tónleikum á aðventunni á Skagaströnd og Blönduósi. 

Á dagskránni verða aðventu- og jólasálmum, jólapopplögum og klassískum ballöðum. Gera má ráð fyrir að allt að 70-80 manns taki þátt í flutningnum.