Sjúkrasjóður leitar eftir fjárstuðningi

Sjúkrasjóður Höfðakaupstaðar er 40 ára á þessu ári. Sjóðurinn hvetur nú almenning til að styrkja sjóðinn með fjárframlögum eða með því að kaupa minningarkort sem er aðaltekjulind hans. 

Stofndagurinn miðast við staðfestinu á skipulagsskránni sem var 3. júlí 1969. Upphaflega var sjóðurinn stofnaður af félagskonum í Kvenfélaginu Einingu þann 24. júlí 1947. 

Markmið sjóðsins var að beita sér fyrir og styrkja sjúkrahússbyggingu í Höfðakaupstað eins og bærinn var þá nefndur. Einnig mátti verja sjóðnum til annarra heilbrigðismála.

Bygging sjúkrahúss, sem var grundvallarhugsjón þessara framsýnu kvenna, varð ekki að veruleika en mörg tæki til heilbrigðismála hafa verið keypt fyrir fjármagn úr sjóðnum.

Árið 1953 var keypt stórt og vandað gegnumlýsingaræki og styrktu konur úr Skagahreppi þau kaup. Tækið var mikið í notkun meðan læknar sátu á Skagaströnd. Þá var einnig keypt sjúkrakarfa og Héraðshælið á Blönduósi veittur styrkur.

Verkefni Sjúkrasjóðsins hafa verið mörg og mismunandi eins og eftirfarandi listi ber með sér:

  • 1956 ljósabekkur sem staðsettur var í Barnaskólanum
  • 1966 súrefnistæki
  • 1972 skurðstofulampi
  • 1975 hjartalínurit og súrefnistæki
  • 1976 hitapottur með tilheyrandi púðum
  • 1977 sæng, koddi ofl.
  • 1981 stuttbylgjutæki,koddar, kodddaver
  • 1984 mælingaborð fyrir ungbörn
  • 1985 sjúkra- og nuddbekkir, trissa, dýnur ofl.
  • 1988 lágtíðnitæki, stuttbylgjustóll, snúningsstóll, þurrkuvagn, miðtíðnitæki ofl.
  • 1989 hljóðbylgjutæki
  • 1992 tækjakaup í sjúkrabílinn
  • 1994 þrekhjól, ábreiður, bakstrar
  • 1997 tækjakaup fyrir Rauða krossdeildina á Skagaströnd
  • 2001 nuddtæki
  • 2002 vaxpottur til handaþjálfunar
  • 2003 leysitæki sem nýtist við verkjameðhöndlun
  • 2007 frystiskápur

Mörg af þessum tækjum er t.d. mikið notuð af sjúkraþjálfara. Enn vantar mörg smá og stór tæki sem nauðsynleg þykja við umönnun og þjálfun sjúkra. 

Sem fyrr segir eru fjárframlög til sjóðsins vel þegin.