Skaðar á Skagaströnd

Trausti Jónsson, veðurfræðingur, heldur út áhugaverðu bloggi (http://trj.blog.is) og fjallar þar á skiljanlegan hátt um veður af öllum áttum (af öllu tagi). Í dag birti hann pistil með ofangreindri fyrirsögn. Hann er endurbirtur hér, að vísu án leyfis, en vonandi misvirðir Trausti það ekki.

Eins og fram hefur komið hjá mér á þessum vettvangi áður er ég að dunda mér við að taka saman veðuratburðaskrá. Í bili nær hún aftur til 1873 en er og verður auðvitað ansi gloppótt. En hún er þó komin á það stig að hægt er að leita eitthvað í henni, t.d. eftir staðarnöfnum. Ég hef reynt að forðast skipsskaða og aðrar slysfarir sem ekki tengjast veðri. Nú hef ég mér til gamans flett upp á Skagaströnd i þessu sambandi. Hvers vegna Skagaströnd? Það er engin sérstök ástæða fyrir því önnur en sú að í því sem nú er fyrsta lína skrárinnar er einmitt tjón þar.

Um 1870 og fyrr var mikil verslun á Skagaströnd og þar áttu viðdvöl verslunarskip frá útlöndum, komu með varning og tóku við öðrum. En færslan er þessi:

10. september 1873: Möstur brotnuðu á báðum kaupskipunum á Skagaströnd og þau urðu að strandi, fiskhjallur fauk þar með öllu.

Ári síðar varð annað ámóta óhapp:

29. september 1874: Kaupskip eyðilagðist við Skagaströnd, mannbjörg varð, veðrið sagt verra en það sem olli sköðum á Skagaströnd árið áður. Spákonufellskirkja hnikaðist um breidd sína. Miklir skaðar urðu víðar í þessu norðaustanveðri.  

13. desember 1877. Skip skemmdust á Skagaströnd. Hér er dagsetningin ekki alveg viss. Fleiri skaðaveður gerði nefnilega þessum mánuði með talsverðu tjóni.

Snemma í nóvember 1879 fórust skip frá Skagaströnd og víðar, ekki veit ég hvar.

2. eða 3. janúar 1887. Fimm skip fórust á Skagaströnd, 24 menn fórust.

18. eða 19. september 1893: Fiskibátur fauk yfir hús á Skagaströnd, lenti þar á manni sem slapp lítið meiddur.

27. apríl 1906: Fiskiskip strandaði við Skagaströnd, einn maður fórst. Þetta veður olli stórfelldu tjóni víða um land.

22. mars 1907: Maður varð úti 22. nærri Skagaströnd.

9. eða 12. janúar 1913: Fokskemmdir urðu á Skagaströnd og í grennd.

21. desember 1929: Varðskipið Þór strandaði við Skagaströnd, mannbjörg varð.

8. til 9. janúar 1935: Þak fauk af íbúðarhúsi á Skagaströnd.

26. nóvember 1935: Tveir menn meiddust við björgunarstörf í illviðri á Blönduósi og á Skagaströnd. Ekki er getið um hverju þeir voru að bjarga.

16. september 1936: Bryggjan á Skagaströnd skemmdist illa. Þetta veður olli gríðarlegu tjóni á landinu.

18. eða 19. desember 1945: Sex smábátar fuku á Skagaströnd. Íbúðarhús þar laskaðist svo mikið að það varð ekki íbúðarhæft, hafnarhúsið skemmdist og matarskúr fauk, fleiri hús löskuðust.

1. febrúar 1956: Krapahlaup drap 4 kindur á Efri-Mýrum á Skagaströnd.

2. febrúar 1956. Tjón varð talsvert á Skagaströnd og þar í grennd fauk þak af íbúðarhúsi á Syðra-Hóli og braut það fjósið, hlaða féll að nokkru á Brandaskarði, á Miðgili tók þak af íbúðarhús svo fólk þurfti að flýja bæinn. Vörubíll fauk af vegi í nágrenni Skagastrandar.

23. nóvember 1961: Vélbátur frá Skagaströnd fórst og með honum tveir menn.

13. janúar 1962: Skúr fauk á rafmagnslínur á Skagaströnd og braut staura.

12. til 15. janúar 1975: Rúður brotnuðu í nokkrum húsum á Skagaströnd í miklu hvassviðri.

31. janúar 1985: Bátur sökk í höfninni á Skagaströnd í ísingarveðri.

2. til 4. janúar 1991: Plötur fuku af fjölda húsa á Skagaströnd. Þetta veður er þekktast fyrir gríðarlegar ísingarskemmdir á raflínum á Norðurlandi.

16. janúar 1995: Kyrrstæð vöruflutningabifreið fauk útaf nærri Skagaströnd. Þetta veður er kennt við snjóflóðin í Súðavík.

24. til 26. október 1995: Verulegar skemmdir urðu á Skagaströnd, þak fauk þar af nýbyggðu parhúsi, þak af gömlu íbúðarhúsi fauk og húsið skekktist, skúrar fuku og fleira lauslegt. Þetta veður er kennt við snjóflóðið á Flateyri.

5. nóvember 2006: Skip slitnuðu upp í hvassviðri á Skagaströnd.

Ég sé nú sitthvað sameiginlegt með þessum veðrum, en þarf að athuga málið nánar til að ég átti mig nákvæmlega á því. Mér sýnist þó að ákveðin tegund veðra af vindátt á bilinu 50 til 70 gráður komi mjög við sögu, auk fáeinna úr öðrum áttum. Lýkur hér pistli um skaðaveður á Skagaströnd. Þau eru sjálfsagt fleiri en getið er um hér.

Tvær athugasemdir hafa verið gerðar við bloggið og eru þær þessar:

1. Takk fyrir þessa fróðlegur upptalningu. N-Austan áttin er skæðust átta á Skagaströnd. Axel Jóhann Hallgrímsson.

2. Kærar þakkir fyrir þetta og allan annan fróðleik í þessum pistlum. Merkilegt hvað ýmis afbrigði af NA-átt eru miklu hvassari á Skagaströnd en hinumegin á Skaganum. Þorkell Guðbrands