Skagastrandarhöfn - hvað vantar

 

Skagastrandarhöfn – snyrtiaðstaða – wc og sturtur.

Töluverð umferð smárra og stórra báta er um Skagastrandarhöfn og flestir þeirra koma til að landa afla. Skagastrandarhöfn er í samkeppni við aðrar nálægar hafnir varðandi það að sjómenn á þessum bátum velji að hafa hér aðsetur. Fiskmarkaðurinn er t.d. í harðri samkeppni við fiskmarkaðinn á Siglufirði um viðskiptabáta og því skiptir miklu máli að öll aðstaða fyrir sjómennina sé sem best. Skagastrandarhöfn fær svo auðvitað hafnar- og aflagjöld af bátunum sem styrkir rekstur hennar. Ýmsir þættir skipta máli í því hvar sjómenn kjósa að hafa aðstöðu og má þar nefna verslun, veitingar, afþreyingu og snyrtiaðstöðu.

Eitt atriði í þessu sambandi ætla ég að gera að umtalsefni en það er aðstaða sjómanna á þessum bátum varðandi það að komast á klósett og í sturtu. Hér á ég einkum við sjómennina á smærri bátunum sem oft geta skipt tugum. Á hafnarsvæðinu er engin aðstaða á þessu sviði utan þess að þeir eiga kost á að fara á wc í fyrrum verkstæðishúsi SR. Sú aðstaða er á engan hátt fullnægjandi auk þess að menn þræða þar inn á milli ýmiskonar véla, tækja o.fl. til að komast leiðar sinnar. Það að geta t.d. komist í heita og góða sturtu þegar komið er í land, hvort heldur er á nóttu eða degi, getur beinlínis ráðið því í hvaða átt stefna bátsins er sett.

Á þessu sumri ferðaðist ég sem oftar um landið og skoðaði m.a. hvernig snyrtiaðstaðan er á nokkrum höfnum. Sérstaka athygli mína vakti aðstaðan sem Djúpavogur býr þeim fjölmörgu sjómönnum sem þangað sækja en hún er til mikillar fyrirmyndar. Jafnframt er aðstaðan mikið notuð af ferðafólki enda almennt WC merki fyrir allra augum.

Ég lít svo á að það þurfi að koma upp aðstöðu á hafnarsvæðinu þar sem væri að finna a.m.k. tvö til þrjú klósett og tvær góðar sturtur sem myndu þjóna núverandi umsvifum og líklega vaxandi fjölda ferðafólks sem kæmi til Skagastrandar.

Lausnin sem ég sé í þessu væri að fá til afnota kyndiklefa Bátanausts við hlið fiskmarkaðarins en hann gæti verið heppilegur til að koma þessari aðstöðu fyrir og er nánast ekkert notaður. Auk þess er hann ágætlega staðsettur hvað svæðið snertir og gott WC merki myndi gera öllum ljóst hvað þar væri að finna.

Er þetta ekki gott verkefni fyrir hafnar- og skipulagsnefnd að takast á við í samvinnu við sveitarstjórnina og stefnt verði á að aðstaðan verði tilbúin fljótlega á nýju ári?

Lárus Ægir Guðmundsson