Skagastrandarhöfn með hæstu löndunarhöfnum smábáta

Á dögunum sat Adolf H. Berndsen varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. Þar lagði hann m.a. fram fyrirspurn til sjávarútvegsráðherra um þróun smábátaafla á Íslandi s.l. 5 ár. Fyrirspurnin snérist annarsvegar um veiðar eftir veiðarfærum og hinsvegar um þróun landaðs afla eftir löndunarhöfnum.

 

Í svari ráðherra kom m.a. fram að nálægt 85% af heildarafla smábáta var veiddur á línu á síðasta kvótaári. Það er mikil aukning frá árinu áður en þá var hlutur línuveiða 71% og kvótaárið 2001/2002 var hann um 61%.

 

Skagaströnd var á síðasta kvótaári (2004/2005), fimmta löndunarhæsta höfn smábáta og var þar landað 3.688 tonnum. Kvótaárið 2003/2004 var landað þar 2103 tonnum. 

 

Á Hvammstanga var landað á síðasta kvótaári 310 tonnum en til samanburðar var landaður afli þar 801 tonn, árið á undan.

 

Engum afla smábáta var landað á Blönduósi.

 

Siglufjörður er í fjórða sæti yfir stærstu löndunarhafnir smábáta með 3.829 tonn sem er rúmlega þreföldun frá árinu á undan.

 

Stærsta löndunarhöfn landsins er Bolungarvík en þar var landað á síðasta kvótaári 5.371 tonni sem er 20% samdráttur frá árinu á undan.