Skagstrendingar kátir með Músíktilraunir

Hljómsveitin Bróðir Svartúlfs sigraði í Músíktilraunum í ár. Í hljómsveitinni er góð blanda af Skagfirðingum og Húnvetningum þar sem bassaleikarinn Jón Atli er frá Skagaströnd, trymbillinn Andri frá Blönduósi, hljómborðsleikarinn Helgi Sæmundur, gítarleikarinn Sigfús og síðast en ekki síst söngvarinn og textahöfundurinn Arnar Freyr eru frá Sauðárkróki.

Segja má að Bróðri Svartúlfs hafi komið séð og sigrað í mörgum skilningi því Arnar Freyr var einnig útnefndur textahöfundur Músiktilrauna fyrir hnittna og vel samda íslenska texta og Jón Atli var valinn bassaleikari Músíktilrauna.

Hlutdeild Skagastrandar var góð í úrslitum Músiktilrauna í ár því auk þessa var Almar Freyr Fannarsson valinn efnilegasti söngvarinn.

Hljómsveit frá Norðurlandi hefur ekki unnið Músiktilraunir síðan hljómsveitin Jójó frá Skagaströnd náði þeim árangri 1988.

Til gamans má geta þess að það var talsverð tenging við þá sem náðu árangri í ár því Viggó bassaleikari Jójó er bróðir Jóns Atla og Fannar sem lék á gítar í Jójó er faðir Almars Freys. Allir eru þeir afkomendur Viggós Brynjólfssonar sem m.a. hefur komið fram sem sérstakur harmonikkuleikari vinnuvélamanna við Kárahnjúkavirkjun ...

Bræðurnir Jón Atli og Viggó Magnússynir hafa sem bassaleikarar báðir unnið Músíktilraunir, reyndar með 21 árs millibili en það er spurning hvort slíkt er ekki einsdæmi í sögu Músíktilrauna.