Skagstrendingar leita að kökum í Nesi listamiðstöð

Í gærkvöldi, sunnudagskvöld, opnaði Aimée Xenou sýningu í Nesi listamiðstöð undir nafninu „Innflutningur á fjölskyldu - annar hluti“. Eins og felst í nafninu var þetta seinni hluti gjörnings. fyrri hlutinn var í Hólaneskirkju fyrir réttum hálfum mánuði.

Á annað hundrað manns sótti sýninguna í gær og koma þar margt til. Gjörningar geta verið áhugaverðir og skemmtilegir. Hitt er ekki verra að í seinni hlutanum var öllum Skagstrendingum boðið að koma og snæða köku sem merkt var nafni hvers og eins þeirra.

Aimée Xenou er listamannsnafn þýsku konunnar Ninette Rothmüller. Hún hefur dvalið í Nesi listamiðstöð frá því í lok nóvember á síðasta ári. Undanfarin 20 ár hefur hún ferðast mikið á milli landa, víða staldrað við, þó hvergi lengur en sex mánuði. Segja að hún hafi öll þessi ár hvergi átt heima. Og þó - ef til vill er réttara að segja að hún hafi átt alls staðar heima.

Fjölskylda Ninette hefur aðstoðað hana hér á landi. Bróðir hennar orgelleikarinn Björn Rothmüller kom alla leið frá Þýskalandi til að leika á kirkjuorgelið og vera viðstaddur fyrri hluta gjörningsins. Svo hélt hann aftur til síns heima.

Nú hafa foreldar hennar heimsótt Skagaströnd, þau Heike og Joschi Rothmüller, og hafa tekið virkan þátt í framkvæmd gjörningsins.

„Hvernig er að vera alltaf útum allt og skilja ekki tungumálin,“ spurði Katla, nemandi við Höfðaskóla á Skagaströnd.

Ninette fannst þetta góð spurning og tók Kötlu bókstaflega á orðinu. Hún gekk því á milli manna og fékk Skagstrendinga sem hún hitti á förnum vegi til að kenna sér eitt orð í íslensku. Þýðingu orðsins mátti hins vegar aðeins segja í táknmáli eða á íslensku og þangað til Ninette skildi það. Þannig safnaði hún saman á þriðja hundrað orðum sem hún reyndi að tileinka sér.

Ninette fékk síðan Arnþrúði Jónsdóttur, táknmálstúlk, til að útskýra orðin á myndbandi. Þá bjó Ninette til tungumálaþraut sem var hluti af sagnaskúptúr sýningar hennar í Bjarmanesi. Og alla síðustu viku hafa Skagstrendingar lagt leið sína þangað til að reyna að ráða í þessi íslensku orð á sem þeir kenndu listamanninum. Dæminu hafði í þetta sinn verið snúið við því nú voru þau komin á táknmál og því heimamanna að geta upp á þýðingunni.

Þann tíma sem Ninette hefur verið hér á Skagaströnd hefur henni fundist bæjarbúar hafi eiginlega tekið sig í fóstur og jafnvel alið önn fyrir sér. Í gær endurgreiddi hún greiðann, ef svo má segja. Hún og Heike móðir hennar buðu upp á einstaka köku sem fjölskylda hennar hefur alltaf bakað þegar hún hefur komið saman. Þessa köku gáfu þær Skagstrendingum í þakklætisskyni fyrir að hafa fóstrað hana í alla þessa mánuði. 

Kökunum var raðað á borð. Undir hverri þeirra var servétta sem á var ritað nafn þess Skagstrendings sem átti kökuna. Verst var að þeim var ekki raðað í stafrófsröð og þurftu margir að leita lengi til að finna sína.

Gestir fögnuðu listamanninum og foreldrum hennar og þökkuðu henni kærlega fyrir skemmtilega viðkynningu.

Finnst áreiðanlega flestum að margir góðir og skemmtilegir listamenn hafi rekið á fjörur þeirra síðan Nes listamiðstöðin tók til starfa. Aimée Xenou eða Ninette Rothmüller verður áreiðanlega með þeim eftirminnilegustu.

Meðfylgjandi myndir tók Signý Ósk Richter og Ingibergur Guðmundsson.