Í "Skagstrendur vikunnar" kynnum til sögunnar íbúa Skagastrandar í stuttum og léttum viðtölum. Markmiðið er að byrja vikuna á brosi, jákvæðni og betri tengingu við fólkið í samfélaginu okkar.
Skagstrendingur vikunnar er Snæfríður Dögg Guðmundsdóttir.
Hver ert þú og hver er þín saga í stuttu máli – hvernig varð Skagaströnd hluti af lífi þínu?
Ég heiti Snæfríður Dögg, móðir, unnusta, dóttir og vinkona. Ég er rétt að klára fæðingarorlof en vinn á leikskólanum Barnaból og er búin með eina önn í leikskólakennaranáminu og stefni á að halda áfram í haust. Ég flutti á Skagaströnd sumarið 2012, þá 9 ára gömul, þegar pabbi fékk vinnu hérna. Er upphaflega frá Akureyri en finnst nú töluvert skemmtilegra að segjast vera Skagstrendingur. Þrátt fyrir að hafa flutt burt til að stunda framhaldsskólanám annars staðar, fannst mér ekki annað í stöðunni en að flytja hingað aftur. Við erum núna búin að kaupa mér hús hérna og sjáum ekki fram á að vilja flytja héðan, hér er svo rosalega gott að vera!
Hvað finnst þér gera Skagaströnd að góðum og heillandi stað til að búa á?
Ég hef alltaf elskað kyrrðina hérna. Það er eitthvað svo ótrúlega notalegt og róandi að vera við hafið og svo er dásamlegt samfélagið hérna, maður þekkir alla og fátt meira gaman en að hendast út í búð, maður lendir oftar en ekki á einhverju skemmtilegu spjalli.
Áttu þér uppáhaldsstað á Skagaströnd og afhverju?
Ég verð að segja Vetrarbrautin. Hún hefur verið lykilatriði frá því ég flutti hingað, út að labba með vinkonum á kvöldin í grunnskóla til að ræða daginn og veginn, svo byrjaði vináttan við manninn minn á sama hátt 2016, ég, í áttunda bekk, ógurlega skotinn í strák í tíunda bekk og trúði ekki að hann vildi “hanga” með mér og fara í göngutúra og loks margir, margir, margir göngutúrar þar með dóttur minni, að reyna svæfa hana og halda henni sofandi!
Hvernig lítur fullkominn dagur á Skagaströnd út fyrir þér? Mínir uppáhalds dagar eru laugardagar og hinn fullkomni laugardagur er að vakna með dóttur minni og borða saman í rólegheitum, við Aron förum í ræktina saman, ekki verra ef það er Manchester United leikur í hádeginu og svo er restin af deginum eytt í góðum félagsskap með fjölskyldunni og helst með góðum mat.
Hvað í daglegu lífi hér veitir þér gleði eða ró?
Nándin. Mér þykir ekkert veita mér jafn mikla gleði og að hafa fjölskyldu, tengdafjölskyldu og vini hér í þessum fallega bæ með mér.
Hvaða eiginleika eða áhugamál skilgreina þig best – innan eða utan vinnu?
Vá, ég held að það sé söngur og líkamsrækt. Það hafa örugglega allir og amma þeirra heyrt mig syngja á einhverjum tímapunkti, enda erfitt að missa af því, ég er alltaf sönglandi og svo fer ég í ræktina (nánast) daglega.
Er eitthvað skemmtilegt, óvænt eða sérstakt við þig sem flestir vita ekki?
Flestir hafa bent mér á að ég sé með rosalega litlar fætur, enda í skóstærð 36 en stundum kaupi ég mér skó í 37 þannig ég líti út fyrir að vera með stærri fætur.
Hvaða manneskja, atburður eða upplifun á Skagaströnd hefur haft mótandi áhrif á þig?
Það myndi vera Sigurður Aron, við erum að detta í áttunda árið okkar saman og ég ætla að leyfa mér að vera pínu væmin og lýsa yfir þakklæti mínu fyrir honum, enda er hann einfaldlega langbestur!
Hvað fær þig helst til að brosa þegar þú hugsar um bæinn okkar?
Fólkið hérna. Mér finnst flestir gera sér grein fyrir því hvað við erum heppin með þennan krúttlega bæ og margt í samfélaginu sem gerir lífið hérna svo litríkt og tengir okkur saman, t.d. kórinn, bumbubolti, pickleball o.fl í íþróttahúsinu, þorrablótið og sjómannadagurinn svo eitthvað sé nefnt. Það eru bæjarbúar sem standa bakvið alla þessa hluti og skapa minningar sem maður getur hugsað hlýtt til og verið ævinlega þakklátur fyrir góðar stundir.
Hvaða skilaboð eða ósk viltu senda til íbúa Skagastrandar – núna eða til framtíðar?
Kæru íbúar, þið eruð öll frábær! Höldum áfram að leyfa bænum og samfélaginu að blómstra.
Við hjá sveitarfélaginu þökkum Skagstrendingi vikunnar kærlega fyrir að deila með okkur sinni sögu. Þessi viðtöl minna okkur á styrkinn í samfélaginu okkar og hversu dýrmætt er að kynnast fólkinu sem gerir Skagaströnd að því einstaka samfélagi sem hún er.
Njótið vikunnar!