Skemmtileg heimsókn frá Hönefoss í Noregi

Heimsókn frá Hov skóla
Heimsókn frá Hov skóla

Undanfarin tvö hefur verið í gangi samvinnuverkefni milli Höfðaskóla og Hov skóla í Hönefoss í Noregi þar sem sambandi var komið á milli elsta bekkjar Hov skólans og tveggja elstu bekkja Höfðaskóla með gagnkvæma heimsókn að markmiði. Hafa nemendur unnið ýmis verkefni um staði og lönd hvors annars og verið dugleg að safna peningum til að geta heimsótt hvort annað.

Norðmennirnir riðu á vaðið og dvöldu hér á Skagaströnd 24.-26. maí. Allir gestirnir voru klæddir í bláar peysur sem er nokkurs konar einkennismerki verkefnisins og allir sem tóku á móti þeim hér voru í sams konar peysum. Hingað komu 25 norskir nemendur ásamt 8 fylgdarmönnum, þar á meðal myndatökukonu sem tók upp alla heimsóknina.

 

Norðmennirnir komu að kvöldi 24. maí og eftir að hafa borðað í Kántrýbæ fór hópurinn í íþróttahúsið og tók þátt í örnámskeiði í kántrýdönsum. Að því loknu fór hver heim með sínum gestgjafa því allir gistu heima hjá nemendum úr 9. og 10. bekk.

Á miðvikudagsmorgni var haldið af stað í hringferð fyrir Skagann. Stoppað var á nokkrum stöðum á leiðinni, m.a. í Kálfshamarsvík, á Hrauni var æðarvarp skoðað og við Ketubjörg fengu allir sem vildu að smakka hákarl. Að þessu loknu var snætt nesti í Skagaseli.  Þegar komið var heim til Skagastrandar var hópnum skipt í þrennt.  Allir fengu að fara í golf, á hestbak og í siglingu út að ísjakanum. Þetta þótti hin mesta upplifun fyrir alla. Um kvöldið var síðan grillveisla í Fellsborg í umsjón foreldra og svo diskótek á eftir.

Á fimmtudagsmorgni var byrjað á að fara í skólann, skólinn var skoðaður og unnið eitt vinaverkefni. Síðan var haldið í jeppaferð upp að Langavatni. Hátt í 15 jeppar fluttu alla upp að vatni. Þar voru bátar fyrir þá sem vildu veiða en frekar kalt var uppfrá, þannig að veiðimenn héldu ekki lengi út. Grillað var í hádeginu, bæði pylsur og fiskurinn sem veiddist. Allir voru sælir og ánægðir með þessa skemmtilegu ferð.

Eftir heimkomuna fóru allir heim með sínum gestgjöfum og tóku til farangurinn sinn og eftir það var haldið á ný í Fellsborg þar sem kveðjukaffi var drukkið. Síðan hélt norski hópurinn af stað suður en ferðin þeirra er alls ekki búin. Þau ætla að skoða sig um fyrir sunnan og halda síðan af stað til Noregs á mánudaginn.

 

Þessum samskiptum er síður en svo lokið því nemendur í 9. og 10. bekk Höfðaskóla halda svo af stað til Noregs þann 7. júní og ætla þau að heimsækja norsku krakkana, ásamt því að skoða sig um í Osló og nágrenni.

 

Höfðaskóli, nemendur og foreldrar í 9. og 10 bekk vilja þakka öllum þeim fjölmörgu sem komu að þessari heimsókn og hjálpuðu við að gera ferðina fyrir Norðmennina sem eftirminnilegasta.