Skemmtilegir tónleikar í Kántrýbæ

Hljómsveitin Janus frá Skagaströnd hélt tónleika í Kántrýbæ laugardagskvöldið 30. október. Í rauninni var um einskonar endurkomu-tónleika að ræða því hljómsveitin hafði ekki komið saman í um 20 ár. Janus var á árum áður dansleikjahljómsveit ungra manna sem voru að hefja tónlistarferilinn. Sumir héldu áfram í hljómsveitum aðrir héldu tónlistargáfunni við með örðum hætti. Sá eini úr Janus sem hefur náð því að lifa af tónlistinni er Guðmundur Jónsson, vel þekktur sem gítarleikari og lagahöfundur “Sálarinnar hans Jóns míns”. Á tónleikunum í Kántrýbæ sáu þeir Guðmundur Jónsson og Hjörtur Guðbjartsson um gítarleik auk þess greip Hjörtur í banjóið eins og honum er einum lagið. Þorvaldur Skaptason sá um söng, Kristján Blöndal þandi húðirnar, Jón Sigurjónsson lék á bassa og Þórarinn Grétarsson spilaði á flautur og munnhörpu. Það má segja að þessi endurkomutónleikar hafi komið verulega á óvart. Gamlir vinir og aðdáendur mættu til að hlusta og taka undir í gömlum Janus-standördum eins og “Ég læðist oft upp á háaloft...” og þeir fengu svo sannarlega að heyra gömlu lögin og miklu meira en það. Hlómsveitin sýndi ótrúlega breidd í lagavali og tókst að skila tónlist allt frá mýkstu ballöðum upp í harðast rokk með miklum ágætum og kom við á leiðinni í írskri þjóðlagatónlist og hráum blús. Það má segja að það hafi kannski ekki verð svo ótrúlegt með Gumma Jóns við stjórnvölin og afbragðs tónlistamenn í áhöfn en það var jú vitað í þröngu samfélagi sjávarþorpsins að þeir höfðu ekki æft nema nokkra tíma á föstudag og rifjað það helsta upp fyrr á laugardeginum. Unga fólkið sem ekki þekkti Janus nema í nostalgíusögum hinna eldri, kom þegar leið á tónleikana og leit inn, margir með efablik í augum, þar sem lesa mátti spurn um hvort hér væri nokkuð fyrir fólk með síðari tíma tónlistarsmekk. Það sneri enginn við í dyrunum á Kántrýbæ og áður en langt var liðið höfðu endurkomutónleikarnir breyst í dúndrandi dansleik. Þegar leið á gerði hljómsveitin hógværar tilraunir til að segja þetta bara gott og hætta en áheyrendaskarinn klappaði og stappaði þar til áfram var haldið. Endurkomutónleikar Janus urðu sem sagt að frábærlega skemmtilegum og eftirminnilegum tónlistarviðburði sem gjarnan mætti endurtaka.