Skemmtilegt aðventukvöld

Fimmtudagskvöldið 2. des. sl. var aðventustemming í Viðvíkurkaffi. Boðið var upp á upplestur og lifandi tónlist. Guðný, Steindór og Árdís lásu upp úr áhugaverðustu bókunum og Hrafnhildur söng nokkur jólalög við undirleik Elíasar. Allt þetta fólk skilaði sínu með miklum ágætum. Steindór gat auðvitað ekki stillt sig um að fleyta nokkrum skemmtisögum frá eigin brjósti með upplestrinum og var í sínum besta ham. Hrafnhildur skilaði jólalögunum á einstaklega skemmtilegan hátt. Húsfyllir var á kaffihúsinu og stemningin notaleg. Í kjallara kaffihússins var opið jólahús þar sem handverksfólks á Skagaströnd hafði muni sína til sölu. Þar gat m.a. að líta listmuni úr gleri og járni, silfursmíð, trémuni, kort úr þangi, ýmis plögg úr flóka og fjörusteina með jólaandlitum svo eitthvað sé nefnt. Í Viðvíkurkaffi stendur einnig yfir málverkasýning Jóns Ívarssonar sem sýnir olíumyndir á striga. Kaffihúsið og markaðurinn verða opin laugardaginn 4. des. kl 18-22 og sunnudaginn 5. des. kl 14-19. Einnig verður opið þriðudaginn 7. des. og fimmtudaginn 9. des. kl 20-22. Á þriðjudagskvöldinu verður upplestur. Heimsókn í Viðvíkurkaffi og jólahús góð tilbreyting í amstri jólaundirbúnings og sjón sögur ríkari.