Skemmtilegt skáldakvöld

Skáldakvöld
Skáldakvöld

 Það voru góðir gestir sem létu ljós sitt skína á Skáldakvöldi Gleðibankans, sl. miðvikudagskvöld, í Rannsóknasetri HÍ á Skagaströnd. Rithöfundarnir, Gerður Kristný og Aðalsteinn Ásberg, lásu þar upp úr verkum sínum og sögðu frá tilurð þeirra.

Gerður Kristný las nokkur ljóð upp úr nýútkominni ljóðabók sinni, Strandir, sem kom út á síðasta ári en með nafni bókarinnar vísar hún til átthaga ömmu sinnar er þar átti heima. Þá las hún einnig upp úr ljóðabókinni Blóðhófni en fyrir hana fékk hún Íslensku bókmenntaverðlaunin.

Aðalsteinn Ásberg flutti nokkrar þýðingar sínar á ljóðum skálda frá Hjaltlandseyjum en þar dvaldi hann um tíma fyrir nokkrum árum. Einnig las hann m.a. upp úr ljóðabókinni Sjálfsmyndir sem hann sendi frá sér á síðastliðnu hausti. Ennfremur söng hann eigin lög og annarra við eigin texta.

Einnig ræddu rithöfundarnir við áheyrendur, bæði í kaffihléi og eftir að dagskránni lauk.

Að lokinni dagskrá klöppuðu þakklátir áheyrendur flytjendum lof í lófa og héldu heim á leið með bros á vör og aukna innistæðu í Gleðibankanum.

Skáldakvöldið var styrkt af Minningarsjóðnum um hjónin frá Garði og Vindhæli.