Skoðanakönnun um nafn sveitarfélagsins

Hreppsnefnd Höfðahrepps samþykkti á fundi sínum 9. maí sl. að gera skoðanakönnun á viðhorfi íbúa til þess að nafni sveitarfélagsins verði breytt og tekið upp nafnið Sveitarfélagið Skagaströnd sem nafn á sveitarfélaginu.

Áhugi hreppsnefndar á að breyta nafninu byggist á því sjónarmiði að nafn sveitarfélagsins verði samræmt nafni staðarins.

Samhliða kosningum til Alþingis verður því gerð skoðanakönnun meðal kjósenda þar sem spurt verður um viðhorf til að breyta nafni sveitarfélagsins úr Höfðahreppur í Sveitarfélagið Skagaströnd.

 

Nafnið Skagaströnd hefur um langt skeið verið nafn á verslunarstaðnum og þorpinu sem í dag er sveitarfélagið Höfðahreppur. Þótt það nafn hafi verið notað um sveitarfélagið síðan það var stofnað 1939 þá þykir hreppsnefnd það ekki hafa nægjanlega mikla samsvörun við nafnið á byggðinni og hefur oft valdið miskilningi um tengingu við hana. Hreppsnefnd þykir því við hæfi að kanna vilja íbúanna til að breyta nafninu og væntir þess að íbúar taki áskorun um að lýsa viðhorfum sínum með þátttöku í könnuninni.

 

Skagaströnd, 9. maí 2007.

 

Fyrir hönd hreppsnefndar

 

Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri