Skólaferðalag til Danmerkur

Þann 19. maí síðastliðinn lögðu nemendur 9. og 10.bekkja Höfðaskóla af stað í skólaferðalag til Danmerkur, ásamt 2 kennurum og 2 foreldrum.

Einhverjir höfðu ekki farið erlendis áður eða án foreldra sinna og var spennan því eðlilega mikil.   Eftir hefðbundna flugferð var tekin lest frá Kastrup til miðborgar Kaupmannahafnar þar sem hótelið okkar var staðsett.

Skipulögð dagskrá hófst svo með ferð á vaxmyndasafn og  heimsókn  í Tívolí þar sem vart mátti milli sjá hvorir skemmtu sér betur krakkarnir eða þeir fullorðnu. 

Ferðin stóð í sex daga og veðrið lék við okkur allann tímann en hitastigið var um og yfir 20 gráður.

 Margt var gert til skemmtunar, farið var á söfnin Mystic Exploratorie, Guinness World Records og Ripley’s Believe It or Not!  Einnig var farið í gönguferð um Nýhöfn og Amalíuborg skoðuð, í skemmtigarðinn Bakken, dýragarð, skemmtisiglingu þar sem við sáum m.a. Litlu hafmeyjuna, og ekki má gleyma verslunarferðum í Fields og á Strikinu.

Gaman er að segja frá því að rétt áður en við héldum heim á leið komu nemendur 8.bekkjar í stutta heimsókn til okkar og voru þau þá hefja sína skemmtiferð í Kaupmannahöfn. Það voru því 3 bekkir Höfðaskóla, 26 nemendur samankomnir í matsal Hotel Ansgar.

Ferðin tókst í alla staði mjög vel og var aðdáunarvert hvað nemendur voru duglegir að bjarga sér, bæði á ensku og dönsku.

Það voru þreyttir en ánægðir ferðalangar sem stigu út úr rútunni við Höfðaskóla að kvöldi 24.maí í kulda og snjó.

 

Fararstjórar