Slysavarnaskóli sjómanna á Skagaströnd

Slysavarnaskóli sjómanna kom til Skagastrandar dagana 2.-3. september sl. með skólaskipið Sæbjörgu vegna endurmenntunarnámskeiðs sjómanna. Námskeiðið sóttu um 30 sjómenn. Námskeiðið var hnitmiðað og vel að því staðið frá hend Sæbjargarmanna, þar var farið yfir helstu atriði sem geta komið fyrir út á rúmsjó. Má þar m.a. nefna: eldvarnir, meðferð slökkvubúnaðar, björgun manna á sjó með ýmsum búnaði og meðferð gúmmibjörgunarbáta. Björgunarsveitin Strönd á Skagaströnd og Björgunarsveitin Blanda á Blönduósi komu fyrir fluglínutækjum frá fjöru út í grjótgarð þar sem björgunarsveitirnar sýndu meðferð þeirra og menn dregnir á milli í björgunarstól. Þegar upp var staðið voru menn virkilega ánægðir með komu Sæbjargar og telja þetta nauðsynlegan þátt í fræðslu sjómanna. Í lokin fengu þátttakendur skirteini um þátttökuna (maritime safety and survival training centre). Unglingadeild björgunarsveitarinnar Strandar fékk kynningu í meðferð slöngubáta, bæði bóklega og verklega kennslu. Unglingarnir fengu að nota slöngubátana á rúmsjó og tóku þátt í æfingum í björgun fólks úr sjó. Og fengu kynningu á notkun neyðarbúnaðar skipa bæði gúmmíbjörgunarbáta og búnaði sem í þeim er. Unglingadeildin tók virkan þátt í undirbúningi námskeiðsins og hjálpuð til við að koma fluglínubúnaði fyrir. Alls tóku 12 unglingar þátt í æfingunni.