Soffía Lárusdóttir fær viðurkenningu

 

„Tómstunda- og menningarmálanefnd Skagastrandar er það mikil ánægja að veita Soffíu S. Lárusdóttur viðurkenningu fyrir að hafa átt frumkvæði að samstöðu meðal íbúa við að gera Skagaströnd skrautlegri og skemmtilegri um Kántrýdaga.

Fyrir það ber að þakka.“

 

Svo segir á viðurkenningarskjali sem Jensína Lýðsdóttir, formaður nefndarinnar, afhenti Soffíu á laugardagskvöldi Kántrýdaga.

 

Við afhendinguna sagði Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, að skreytingar í bænum væru heillandi og afar skemmtilegar. Í byrjun áttu margir það til að skreyta garða sína en það þurfti einhvern til að hvetja menn til dáða, að taka höndum saman og vinna markvisst að skreytingum gatna. Soffía átti þetta frumkvæði. Hún tók upp símann, hringdi í nágranna sína, safnaði þeim saman og fyrir vikið var heil gata skreytt. Þetta barst út og íbúar í öðrum götum ákváðu að skreyta nágrenni sitt. Og nú er bærinn er allur skreyttur, öllum til gleði og ánægju.