Söngdagar á Húnavöllum um helgina

Söngdagar á Húnavöllum um helgina
Tónleikar í Blönduóskirkju klukkan 15 á sunnudaginn

 

Það verður mikið um að vera á Húnavöllum um helgina en þá mun Sólveig Sigríður Einarsdóttir, kannski frekar þekkt sem Sísa á Mosfelli, standa fyrir söngdögum fyrir áhugafólk um söng.

 

Eins og undanfarin ár þá eru miklir fagmenn sem mæta á svæðið til að kenna fjölbreytta og skemmtilega tónlist, má þar nefna Gunnar Þórðarson gítarleikara, Daníel Þorsteinsson píanóleikara, Birgi Bragason kontrabassaleikara, Páll Szabo fagottleikara og söngstjórann Hilmar Örn Agnarsson. Þá mun Haukur Guðlaugsson fyrrverandi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar einnig mæta en hann stóð fyrir sambærilegum söngdögum í mörg ár í Skálholti.

 

Dagskráin hefst snemma á föstudagsmorgun og stendur alla helgina.

Herlegheitunum lýkur svo með tónleikum í Blönduóskirkju klukkan 15 á sunnudag þar sem allir geta mætt til að hlusta á afrakstur helgarinnar. Þar munu koma fram, auk kórfólksins, einsöngvararnir Þórhallur Barðason, Halldóra A. Hayden Gestsdóttir og Dagný Pétursdóttir frá Hólabæ. Aðgangseyrir er 1500 krónur en enginn posi á staðnum.

 

Rétt er að koma því á framfæri að enn er hægt að skrá sig á söngdagana, bæði er eitthvað laust af herbergjum á Hótel Húnavöllum og svo er líka pláss fyrir fleiri söngfugla. Áhugasamir geta fengið nánari upplýsingar hjá Hótel Húnavöllum í síma 453-5600 og 898-4685 eða sent tölvupóst til info@hotelhunavellir.is