Spáð er frábæru veðri í Þórdísargöngu

Gönguferð á Spákonufell og kaffihlaðborðið á eftir er án efa einn af skemmtilegustu dagskrárliðum Kántrýdaga. Svo ótalmargt stuðlar að góðri ferð, til dæmis einstaklega fallegt fjall, afbragðsgóður fararstjóri, áhugaverðar sögur um fjallið og umhverfi þess, útsýnið, blár himinn, sólin, blíðan og fleira og fleira.

Spáð er hátt í 20 gráðu hita á laugardaginn ... Hér er átt við spá Veðurstofu Íslands en skagstrensku spákonurnar spá sólskini til viðbótar.

Það er Menningarfélagið Spákonuarfur sem verður með sína vinsælu Þórdísargöngu á laugardagsmorgun  klukkan 10:00. 

Fararstjóri verður Óli Benna leiðir fólk upp á Spákonufell og segir sögur af Þórdísi og  leitar eflaust að gullinu hennar í leiðinni. 

Eftir gönguferðina er öllum boðið uppá kaffihlaðborð  að hætti Spákonuarfs.  Verð á göngu er kr. 2.500 og er kaffihlaðborðið innifalið, en frítt er fyrir 14 ára og yngri.