Spákonuhof verður líklega opnað í maí

Gamla „Tunnan“ breytist dag frá degi og eflaust á þetta gamla uppnefni eftir að hverfa. Þarna er nú verið að vinna að því að útbúa Spákonuhof. Að utan hefur bragginn verið endurnýjaður og er þó talsverð vinna eftir. 

Að innan er búið að ganga frá lofti og veggjum. Rafvirkjar og pípulagningamenn eru byrjaðir að vinna í lögnunum. Verið er að einangra og leggja viðargólf í salinn og hefur flogið fyrir að haldið verði harmónikkuball, svona að gömlum sið, þegar gólfið er komið á.

Leikmyndahönnuðurinn Sigurjón Jóhannesson er að teikna refil útfrá sögu Þórdísar spákonu og aðrir leikmunir eru óðum að fæðast hjá Ernst og Ágústu Backman sem koma að hönnun og gerð leikmuna á sýningunni.

Hugmyndir og útfærslur eru samt enn að gerjast og verður spennandi að  sjá hver útkoman verður.

Ef allt gengur eins vel og hingað til verður Spákonuhof á Skagaströnd líklega opnað í lok maí.

Önnur myndin sem fylgir þessari frétt er af salnum. Búið er að mála veggina í vínrauðum lit og loftið í svörtum. Hin myndin er af Þóri Arasyni, smið, og Sigurði Bjarnasyni, en breytingar á húsnæðinu hafa að miklu leyti hvílt á þeirra herðum.