Sparkvöllur að komast á lokastig.

Uppbygging sparkvallarins á skólalóðinni gengur vel og styttist óðum í að hann verði fullbúinn. Gerfigrasið var lagt á í byrjun ágúst og veggirnir eru óðum að rísa. Sparkvöllurinn sem er samstarfsverkefni KSÍ og Höfðahrepps hefur verið unnin af Trésmiðju Helga Gunnarssonar og starfsmönnum Höfðahrepps. Verkinu hefur miðað ágætlega og er nú að komast á lokastig þar sem tréverkið í kringum völlinn er vel á veg komið og hellulögn meðfram vellinum er á lokastigi. Gerfigrasið var lagt á af sérfræðingum frá framleiðanda sem gengu frá því á tveimur dögum. Eftir að grasið hafði verið sett á var fyllt í það með einskonar gúmmísandi sem gefur vellinum bæði þéttleika og mýkt. Gúmmísandurinn er hins vegar misvel þokkaður á heimilum þar sem hann vill berast með fótboltagörpum á öllum aldri inn í hús að leik loknum. Í undirlagi sparkvallarins er snjóbræðslulögn sem mun auka mjög á nýtingu vallarins yfir vetrarmánuðina.