Spástofa verður í elsta húsi Skagastrandar

Menningarfélagið Spákonuarfur ehf. á Skagaströnd hefur tekið á leigu Árnes,elsta húsið á Skagaströnd. Það var fyrir skömmu tekið formlega í notkun en sveitarfélagið hefur frá árinu 2007 unnið að endurbyggingu þess. 

Fjöldi bæjarbúa skoðuðu húsið á opnunardeginum og er engu líkar en það sé tímavél sem stillt er á árið 1920. Allt innanstokks miðast við fyrri hluta síðustu aldar og eru ýmsir húsmunir komnir af Sjóminja- og sögusafni Skagastrandar og Byggðasafninu á Reykjum.

Spákonuarfur leigir Árnes til þriggja ára og hyggst meðal annars nýta sér húsið fyrir Spástofu sem er hluti af starfsemi fyrirtækisins. Auk þess er gert ráð fyrir að húsið verði til sýnis og einnig notað til sýningarhalds.

Árnes var byggt árið 1899 af Fritz H. Berndsen kaupmanni sem hafði átt verslun á Skagaströnd um langt árabil. Frá upphafi hafa eigendur hússins einungis verið fjórir.

Árnes hefur umtalsvert menningar- sögulegt gildi. Það er gott dæmi um aðstöðu og lifnaðarhætti á fyrra hluta 20 aldar og er fallega staðsett á svæði sem sveitarstjórn hefur skilgreint sem safnasvæði. 

Árnes er dæmigert timburhús frá fyrri hluta síðustu aldara og hið eina þessarar gerðar í bænum sem mögulegt var að varðveita. Innréttingar eru að mestu upprunalegar sem enn frekar eykur gildi hússins.

Sveitarfélagið Skagaströnd keypti það 2007 til að láta gera það upp í upprunalega mynd. Frá upphafi var gert ráð fyrir að húsið verði notað til sýningar og leitast hefur verið við að búa til sannfærandi mynd af heimili sem nútímafólk myndi telja afar gamaldags.