Sprotar í atvinnu og þjónustu

Enn vaxa skemmtilegir og góðir atvinnusprotar á Skagaströnd. Um áramótin opnar Erla Jónsdóttir rekstrarfræðinigur bókhalds- og rekstrarráðgjafastofu í kjallaranum í gamla kaupfélaginu. Starfsmaður þar, með Erlu, verður Sigríður Gestsdóttir sem er menntuð sem viðurkenndur bókari. Þetta nýja fyrirtæki heitir Lausnamið.

Þá hefur Eygló Amelía Valdimarsdóttir snyrtifræðingur unnið hörðum höndum að undanförnu við að standsetja snyrtistofu sem hún ætlar að vera með í húsnæði hárgreiðslustofunnar Vivu í rýminu þar sem áður var ljósabekkur.

Bæði þessi þjónustufyrirtæki eru þörf viðbót við atvinnuflóruna á Skagaströnd og er þeim óskað velgengni á komandi tímum.

Nýverið fékk svo Rannsóknarsetur HÍ  loforð fyrir níu milljóna styrk til að vinna að verkefni um að koma bókum sáttanefnda á landinu á tölvutækt form og gera þær aðgengilegar á netinu. Þetta kallar á að ráðinn verði starfsmaður eða menn í verkið sem unnið verður í samvinnu við Héraðsbókasafnið á Sauðárkróki. Allt eru þetta góðir sprotar sem auka breiddina á atvinnulífinu hjá okkur.