Spurningakeppnin Drekktu betur á föstudagskvöldið

Loksins byrjar spurningakeppnin DREKKTU BETUR aftur eftir sumarfrí. Nú er nákvæmlega ár síðan þessi vinsæla keppni byrjaði í Kántrýbæ.

DREKKTU BETUR er aðeins leikur. Hann er einfaldur og er aðeins ætlað að vera til skemmtunar. 

Einn stjórnandi er hverju sinni og eru völd hans algjör, hann semur spurningar og er dómari. Ákvörðun hans er endanleg þó svo að hann hafi sannarlega rangt fyrir sér. Hins vegar mega þátttakendur gangrýna hann eins og þeir vilja.

Tveir keppendur geta verið í hverju liði og þeir skrifa svörin niður á sérstakt svarblað. Þegar búið er að spyrja allra spurninga er svörunum safnað saman og þeim síðan dreift aftur um salinn og þess gætt að enginn fari yfir eigið svarblað. Stjórnandi fer síðan yfir svarblað þess sem sigrar og gætir að því að rétt sé að málum staðið.

Ein spurning er nefnd „bjórspurningin“ og fyrir rétt svar fæst ókeypis bjór á barnum. Ekki er sagt frá því hver spurningin er fyrr en við yfirferð svara.

Nafn spurningakeppninnar kemur til að því að ókeypis er inn í Kántrýbæ en þátttakendur eru hvattir til að drekka nóg upp í húsaleiguna og er margt í boði, kaffi, gos, bjór og vín. Það gengi auðvitað ekki að nafn keppninnar væri Éttu betur en í sjálfu sér kemur það á sama stað niður.

Föstudagskvöldið 18 sept.

Steindór R. Haraldsson verður spyrill, dómari og alvaldur í spurningakeppninni DREKKTU á föstudagskvöldið. Hann getur verið dálítið ólíkindatól, er jafnvel vís með að spyrja eingöngu spurninga um sig sjálfan eða störf sín.

Sjálfur segist hann verða með svona „kommon sens“ spurningar og líklega á hann við að svörin byggist á almennri skynsemi. Svo bætir hann því við að auðvitað muni hann spyrja um örfá atriði í fréttum undanfarinna vikna og nefnir í framhjáhlaupi að gott sé að vita eitthvað um bankahrunið!

Þeir sem þekkja Steindór vita að hann gæti átt það til að spyrja afar einfaldra spurninga eins og hvernig er vanilla á bragðið. Vefst þá flestum tunga um höfuð.

En Steindór hlær bara og segist ekkert ætla að vera neitt fræðilegur enda er spurningakeppnin eintóm skemmtun.