Stór áfangi í umhverfismálum á Norðurlandi

Í dag verður urðunarstaðurinn Stekkjarvík tekin í notkun en þar verður tekið við sorpi til urðunar af Norðurlandi vestra og af Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta eru því mikil tímamót fyrr íbúa á þessum landsvæðum.

Byggðasamlagið Norðurá stendur að verkefninu en það er í eigu sex sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði. Fyrirtækið hefur gert samning um sorpförgun við Flokkun Eyjafjörður ehf. en hann er ein af forsendum fyrir uppbyggingu í Stekkjarvík.

Stekkjarvík er skammt norðan við Blönduós, í landi Sölvabakka. Þar hófst vinna við skipulag og umhverfismat árið 2009 og hefur síðan verið unnið að undirbúningi.

Staðhættir
Helstu jarðfræðilegu kostir Stekkjarvíkur fyrir urðunarstað af þessari stærðargráðu eru að þykkur malarbunki liggur þar á hörðu leirlagi og þétt basaltklöpp undir. Við þessar aðstæður er hægt að tryggja söfnun á sigvatni þar sem leirlagið nýtist í botnþéttingu. Vatnsauðlindum er ekki ógnað því svæðið er tiltölulega þurrt og grunnvatn rennur í átt til sjávar en ekki í aðra og viðkvæmari viðtaka.
Sjónræn áhrif eru takmörkuð því urðun fer fram neðan núverandi landyfirborðs og en auðvitað er uppgröfturinn sjáanlegur. Hljóðmengun er í lágmarki og engar fornleifar innan svæðisins. Hvorki sjaldgæfar plöntur né dýr á válista verða fyrir áhrifum.

Magntölur
Lóð urðunarsvæðisins er 30 ha en fyrsti áfangi urðunarhólfs er 2,7 ha. Samtals verða um 6 ha teknir undir urðunarhólf í fjórum áföngum. Hólfið er 20 m djúpt og útgrafið jarðefni í 1. áfanga er 390.000 m3. Gert er ráð fyrir að þessi áfangi endist í allt að sex ár en næstu áfangar hlutfallslega betur þar sem miðja hólfsins, sem verður fyllt upp í lokin, er hluti af fyrsta áfanga.
Þjónustuhús er um 65 m2 og þjónustuplan við það 1.200 m2. Bílvog er 18,3 m og miðast við allt að 100 tonn.

Mengunarvarnir
Urðunarhólfið uppfyllir að öllu leyti umhverfis- og mengunarvarnarkröfur. Það er klætt innan með sérstökum þéttidúk úr leirefni sem varnar því að sigvatn fari út í grunnvatn. Í botninum er lagna- kerfi þar sem 600 m af götuðum lögnum veita öllu vatni inn í hreinsistöð sem er með sand- og olíuskilju og fellitönkum. Sýni verða tekin reglulega til að fylgjast með og skrá efnainnihald.

Kostnaður
Heildarkostnaður við verkið er orðinn tæpar 360 milljónir króna með vsk. Þar af er kostnaður við gerð urðunarhólfsins um 230 milljónir og bygging og frágangur húss og vogar um 37 milljónir. Kostnaður við forkannanir, umhverfismat, hönnun, rannsóknir, eftirlit og leyfisgjöld er um 70 milljónir og vélar og búnaður eru um 14,5 milljónir.
Verkefnið hefur verið fjármagnað með lántöku frá Lánasjóði sveitarfélaga sem verður endurgreitt á 13 árum.

Áætlaður rekstur
Vinnu við mannvirki urðunarstaðarins er lokið og rekstur hafinn. Gert er ráð fyrir að sorpmóttaka verði opin alla virka daga. Ekki er ætlast til að einstaklingar komi með sorp til urðunar heldur nýti sér næstu móttöku- eða flokkunarstöðvar sorps. Viðskiptavinir Norðurár bs. verða því fyrst og fremst rekstraraðilar móttökustöðvanna og aðrir stærri úrgangslosendur.

Umhverfisávinningur
Með opnun urðunarstaðar í Stekkjarvík verður fjórum urðunarstöðum á Norðurlandi lokað en það eru Draugagil við Blönduós, Neðri-Harra- staðir við Skagaströnd, Skarðsmóar við Sauðárkrók og Glerárdalur við Akureyri.
Akstursfjarlægðir aukast en frá Stekkjarvík eru 6 km til Blönduóss, 17 km til Skagastrandar 40 km til Sauðárkróks og 155 km til Akureyrar. Á móti koma ýmsir kostir sem auka bæði hagkvæmni og umhverfis- ávinning. Norðurá bs. mun áfram stuðla að aukinni flokkun úrgangs, endurvinnslu og bættri meðhöndlun hans.