Styrkir í boði til að auka verðmæti sjávarfangs

AVS sjóðurinn auglýsir eftir umsóknum, en framundan er áttunda starfsár sjóðsins. Að þessu sinni stendur umsækjendum til boða að sækja um í nýjan flokk verkefna, atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum landsins, auk hefðbundinna verkefna.

Atvinnuþróun og nýsköpun
Eins og kemur fram í auglýsingu sjóðsins þá stendur umsækjendum til boða að senda inn umsóknir þar sem sérstök áhersla er lögð á atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum landsins. 

12 mánaða verkefni
Þarna verður fyrst og fremst lögð áhersla á styttri verkefni sem eiga að vinnast á innan við 12 mánuðum og geta skapað ný störf og aukin verðmæti í sjávarbyggðum vítt og breitt um landið. 

Styrkur allt að 50%
AVS sjóðurinn er tilbúinn til að leggja fram að hámarki 50% af kostnaði verkefnanna og verður hámarksstyrkur 3 m.kr.

Umsóknin
Mikilvægt er að leggja fram vel rökstuddar og arðvænlegar hugmyndir að verkefnum sem geta aukið fjölbreytni og eflt atvinnu og verðmætasköpun. Sigurður Sigurðarson, atvinnu- og markaðsráðgjafi getur aðstoðað íbúa og fyrirtæki á Skagaströnd við gerð umsókna.

Ferðaþjónusta
Lykilhugtök í þessum nýja verkefnaflokki AVS eru m.a. matarferðamennska, hönnun, nýtt hráefni, sjálfbærni, uppruni, ferðaþjónusta, vöruþróun, fullvinnsla, vörur í smásölu eða á borð neytenda, nýjar tegundir, smáframleiðsla o.fl. 

Sérstök umsóknaeyðublöð fyrir þennan flokk umsókna eru að finna á heimasíðu sjóðsins, sjá http://www.avs.is/umsoknir/.

Niðurskurður
AVS sjóðurinn býður áfram upp á hefðbundin verkefni með sömu áherslum og áður, en því miður þá verður framlag til sjóðsins skorið umtalsvert niður þannig að ekki verður mögulegt að styðja jafnmörg verkefni á næsta ári og undanfarin ár. 

Umsóknafrestur er þriðjudagurinn 1. febrúar 2011.

Hvað er AVS?
AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi starfar á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.

AVS rannsóknasjóður veitir styrki til rannsóknaverkefna, sem auka verðmæti sjávarfangs. Styrkir eru veittir til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis.

Styrkir AVS rannsóknasjóðs eru til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum.

Stjórn sjóðsins forgangsraðar tillögum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um styrki til rannsókna í þágu verkefna sem auka verðmæti sjávarfangs og styrkja samkeppnishæfni sjávarútvegsins.