Sumardagurinn fyrsti hjá FISK á Skagaströnd

Landvinnsla FISK á Skagaströnd var með opin dag og bauð í heimsókn í vinnsluna, sumardaginn fyrsta. Þar var boðið upp á ýmislegt skemmtilegt. Starfsfólk vinnslunnar stóð að skemmtilegri kynningu á afurðum og vinnsluaðferðum og sýndi hvernig fiskurinn er meðhöndlaður í vinnslunni. Andrúmsloftið var svo gert léttara með lifandi tónlist og einnig boðið upp á sælkerarétti úr saltfiski svo og fiskisúpu. Í hluta vinnslusalarins var uppi myndlistasýning leikskólabarna sem þau unnu eftir heimsókn í vinnsluna fyrr í vikunni. Aðalviðfangsefni þeirra í myndgerðinni var fiskur, einkum saltfiskur og óhætt að segja að túlkun þeirra á viðfangsefninu hafi verið lífleg og skemmtileg. Fjöldi fólks lagði leið sína í landvinnsluna í blíðunni á sumardaginn fyrsta og greinilegt að fólk kunni vel að meta framtak FISK og það sem í boði var.