Sveitarfélagið Skagaströnd/Höfðahreppur 80 ára

Skagaströnd um aldamótin
Skagaströnd um aldamótin

Í janúar 2019 eru 80 ár frá skiptingu Vindhælishrepps hins forna í þrjú sveitarfélög sem gerð var um áramótin 1938-1939 og var upphaf Höfðahrepps sem í dag heitir Sveitarfélagið Skagaströnd.

Þéttbýlið á Skagaströnd er auðvitað töluvert eldra og má í því sambandi benda á að íbúar á Skagaströnd voru um 60 um aldamótin 1900 og þá voru 15 hús á staðnum. Verslunarstaðurinn Skagaströnd er enn eldri því elstu heimildir benda til þess að verslun hafi verið hafin hér fyrir setningu einokunarverslunar 1602 því Skagaströnd varð einmitt einn af þeim illa þokkuðu einokunarverslunarstöðum danskra kaupmanna í þau 185 ár sem hún stóð fram til 1787.

Vindhælishreppur hinn forni náði allt frá Skagatá og fram að Kirkjuskarði á Laxárdal. Það tók því að bera á því strax árið 1872, þegar farið var að skipa hreppsnefndir að það þótt langt að sækja fundi fyrir þá sem bjuggu næst endum hreppsins. Hugmyndir um að skipta gamla Vindhælishreppi ná þó enn lengra aftur og hægt að rekja heimildir um þær hugmyndir aftur til ársins 1806. Þá var aðallega talað um að skipta hreppnum í tvo hluta og nefna þá eftir kirkjusóknum Höskuldstaðahrepp og Hofshrepp.

Þorpið á Skagaströnd fór svo að vaxa, einkum á þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Þá voru komnar vélar í bátana, búið að steypa fyrstu bryggjuna og raunverulegar hafnarframkvæmdir að hefjast þegar gerður var garður úr landi og út í Spákonufellsey, en vinna við það hófst 1935.

Þegar þarna var komið sögu voru góðbændur í sveitarfélaginu sem voru helstu útsvarsgreiðendur orðnir mjög áhyggjufullir vegna vaxandi íbúafjölda í þorpinu sem þeir sáu ekki fram á að gætu framfleytt sér. Þá var einnig skollin á heimskreppa og ágreiningur milli sveitar og þorps fóru vaxandi.

Í hreppsnefndarkosningum 1937 náðu þorpsbúar svo meirihluta í hreppsnefndinni og þá virðist flestum verða ljóst að nauðsynlegt væri að skipta hreppnum upp og eingöngu talað um þrjá hreppa.

Meðal þeirra mála sem tekist var á um milli hreppshlutanna var ómagaframfærsla og hve mikið land ætti að fylgja þorpinu. Eftir allnokkur fundahöld í öllum nýju hreppshlutunum og störf skiptanefndar fékkst niðurstaða í landsstærðina sem enn gildir og að ómagaframfærslan skyldi vera sameiginlega í sjö ár eftir skiptingu. Auðvitað voru mörg fleiri úrlausnarmál en þeim var öllum fundinn nýr farvegur. Nýju sveitafélögin áttu að heita Vindhælishreppur, Höfðahreppur og Skagahreppur. 

Skipting hreppsins í þrjá hreppa var rædd á fundi hreppsnefndar á þorláksmessu 1938 og þá var ákveðið að aðskilnaður hreppanna tæki gildi 1. janúar 1939 kosning nýrra hreppsnefnda skyldi fara fram 15. janúar 1939.

Í þeirri ágætu bók Byggðin undir Borginni segir svo í niðurlagi umfjöllunar um hreppaskiptinguna:

„Ekki munu allir íbúar hreppsins hafa fagnað þessari niðurstöðu; um það vitnar til dæmis vísa Vilhjálms Benediktssonar frá Brandaskarði:

            Ekki prísa ég ykkar mennt

sem að því verki stóðu

að sundur flísa og saga í þrennt

sveitina mína góðu.

 

Um áramót 1938-1939 gengu kauptúnsbúar til hvílu í Vindhælishreppi vitandi að þeir myndu vakna upp í nýju sveitarfélagi að morgni án þess að hreyfast úr stað. Er ekki að efa að með ýmsum hafa tilfinningar verið blendnar; hvernig myndi þessu fámenna og fátæka sveitarfélagi farnast? Framhjá því varð ekki litið að margir innbúar hins nýja Höfðahrepps lágu við sveit. En ýmis teikn voru á lofti um betri tíð. Skammt undan voru fengsæl fiskimið og silfur hafsins, síldin, óð á hverju sumri inn allan Húnaflóa.“

Nafni sveitarfélagsins var svo breytt úr „Höfðahreppur“ í „Sveitarfélagið Skagaströnd“ eftir atkvæðagreiðslu um nafnabreytinguna samhliða sveitarstjórnarkosningum 2006.

Skagaströnd í janúar 2019

Magnús B. Jónsson