Sveitarfélagið Skagaströnd tekur við fasteignum Fisk-Seafood ehf.

Þann 17. mars sl. undirritaði sveitarfélagið samninga við FISK-Seafood ehf. þar sem eignum félagsins að Túnbraut 1-3, Oddagötu 12 og Hafnarlóð 9 var afsalað til sveitarfélagsins.

Um er að ræða iðnaðarhúsnæði sem hýsti áður gömlu rækjuvinnsluna, síldarverksmiðjuna á hafnarsvæði ásamt skrifstofuhúsnæði sem hýsir Greiðslustofu Vinnumálastofnunar og skrifstofu sveitarfélagsins.


Með breytingu á eignarhaldi skapast ýmis sóknarfæri fyrir sveitarfélagið til þess að stuðla að uppbyggingu og styrkingu innviða ásamt því að hlúa að þeirri mikilvægu starfsemi sem nú þegar er starfrækt á Skagaströnd.


Fyrsta verkefnið sem er á teikniborðinu hjá sveitarfélaginu er að búa 26 starfsmönnum Greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd betri aðbúnað á Túnbrautinni. Mikilvægi þeirrar starfsemi hefur heldur betur sýnt sig á Covid tímum, en starfsfólk býr yfir gríðarlega mikilvægri þekkingu og reynslu.


Í því augnamiði að bæta aðstöðu Greiðslustofu á Skagaströnd til frambúðar hefur á síðustu mánuðum verið unnið að tillögum að breytingu á húsnæðinu. Er það m.a. gert til þess að mæta þörfum vaxandi vinnustaðar þar sem sífellt bætist við starfafjöldann á Greiðslustofu.

Þá munu breytingar á húsnæðinu einnig taka mið af því að skapa aðstöðu fyrir störf án staðsetningar og aðra opinbera starfsemi skapist tækifæri til slíkrar uppbyggingar og ekki síður búa starfsmönnum á skrifstofu sveitarfélagsins sem einnig er staðsett í húsinu betri aðstöðu.


Unnið er að því að finna rækjuvinnslunni og síldarverksmiðjunni hlutverk og verður spennandi að vinna að þeim verkefnum áfram. Fisk-Seafood ehf. er með tímabundinn leigusamning á gömlu síldarverksmiðjunni fram í maí 2024 en fram að þeim tíma verður unnið að því að finna húsnæðinu framtíðarverkefni.