Þjóðarsáttmáli um læsi

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, var mættur í Félagsheimilið á Blönduósi í dag til að undirrita „Þjóðarsáttmála um læsi“ ásamt fulltrúa Heimilis og skóla og fulltrúum sveitarfélagana í Austur Húnavatnssýslu, Húnaþingi vestra og Strandabyggð. Illugi hélt stutt ávarp í upphafi fundar og þá hélt Arnar Þór Sævarsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, ávarp en að því loknu var sáttmálinn undirritaður.

Í kynningarbæklingi um „Þjóðarsáttmála um læsi“ segir m.a. að mennta- og menningarmálaráðuneytið muni haustið 2015 vinna að Þjóðarsáttmála um læsi í samvinnu við sveitarfélög og skóla með það að markmiði að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns.

„Framlag ráðuneytisins verður í formi ráðgjafar, stuðnings, lesskimunar og aukins samstarfs við foreldra. Þá kemur einnig fram í bæklingnum að öll börn eigi að fá tækifæri til að eiga daglega lestrarstund til loka grunnskóla. Foreldrar og aðstandendur þurfi að vera virkir þátttakendur í námi barna sinna og fylgjast með framvindu og árangri. Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi en bágur lesskilningur getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með atvinnutækifæri síðar meir.“

 

Höf. ass

Heimild: Húnarhornið