Þokkaleg nýting á sólinni í skammdeginu

Í daglegu lífi skiptir sólin öllu. Hún er uppspretta lífsins og endalaust getum við talað um hana, notið geisla hennar, horft á hana kvölds og morgna, kvartað undan henni þegar hún lætur ekki sjá sig og lofað þá hún loksins birtist.

Hvort sem sólin er sjáanleg heldur hún sömu göngu sinni dag eftir dag, ár eftir ár. Mannsaugað greinir enga breytingu á hringrásinni nema ef vera skyldi með ofurnæmum tækjum eða sjónaukum sem segja til um upphafið fyrir svona á að giska „skrilljörðum“ ára og jafnvel endalokunum eftir álíka tíma.

Tilviljun kallast það að vera óvart á réttum stað á réttum tíma þegar einhver sá atburður gerist sem áhugaverður þykir. Svo sem eins og að vera staddur á bryggjum Skagastrandar á nákvæmlega þeim stað er sólin sendir geisla sína yfir Flóann og beint í stóru gluggana á íþróttahúsinu sem samstundis endurvarpa þeim aftur yfir út á víkina. Ef til vill er það enn meiri tilviljun að vera með myndavélina tiltæka og ná í hana tvöfaldri speglun sólargeisla. 

Ef til vill fer vel á því að segja að svona er bara þokkaleg nýting á sólinn í skammdeginu.