Þórdísarganga á Spákonufell

„Þetta var frábær ferð, sextíu og fjórir gengu á fjallið. Fólk á öllum aldri, nærri sjötíu ára aldursmunur var á elsta og yngsta þátttakandanum,“ segir Ólafur Bernódusson, fararstjóri í ferðinni.

Um klukkutíma fyrir göngu sást Spákonufell ekki fyrir þoku. 

Skyndilega og eins og hendi væri veifað leystist þokan upp og sól skein í heiði. Enginn sá eftir að hafa tekið þátt. Hiti var mikill í fjallinu, glampandi sól og logn allan tímann.

"Við gengum nú rólega á fjallið, tókum okkur tvo og hálfan tíma í ferðina upp,“ sagði Ólafur. „Enginn var að flýta sér og teknar góðar hvíldir, sagðar sögur sem tengdust Þórdísi spákonu og jafnvel reynt að ná sambandi við álfa. Við höfðu þá góðu reglu að láta sannleikann ekki spilla góðri sögu“ bætti Ólafur við og glotti.

Í ferðinni var göngufólk víða að af Norðurlandi vestra og einhverjir töluðu erlend tungumál.

Að göngu lokinni var boðið upp á veitingar í golfskálanum, kaffi, kakó, vöfflur og kleinur. Allir þátttakendur fengu svo afhenta spádómsvölu sem minjagrip um gönguna frá Spákonuarfi.

Næsta Þórdísarganga á Spákonufell verður laugardaginn 16. ágúst, þ.e. 

á Kántrýdögum. Sagt er að allar spár bendi til að veðrið þann dag verði ekki síðra en í fyrstu Þórdísargöngunni.