Þorrablót leikskólans Barnabóls 2006

Árlegt Þorrablót leikskólans var haldið 26. janúar s.l. Með hverju ári sem líður verða börnin vanari þorramatnum. Eða eins og við segjum gjarnan „gamla íslenska matnum“ og börnunum líkar yfirleitt vel við þennan mat og blessaður harðfiskurinn stendur upp úr og ekki spillir fyrir að hann er verkaður hér á Skagaströnd.  Sem dæmi um aukanr vinsældir gamla matsins má nefna að í fyrra gerðu þau lifrarpylsu og blóðmörnum lítil skil en í ár kláraðist lifrarpylsan.

Sum börnin borða hákarl af bestu lyst og önnur borða hann ekki en flest leggja í að smakka hann. Og það er einmitt það sem við gerum á leikskólanum, við smökkum allan mat áður en við segjum til um hvort okkur líkar hann eða ekki. Því hvernig eigum við að vita að eitthvað er gott ef við þorum ekki að smakka það.

Einn drengur smakkaði hákarl en sagði að hann væri ekki góður og starfsmaður spurði hvort hann hefði smakkað hákarl áður;  „ já, og mér finnst hann miklu betri hjá pabba því  hann sýður hann“ og eins og allir vita er ekki sama hvernig matur er matreiddur sem hefur sitt að segja um bragðgæðin!   

Nú og ein telpan var sýnilega ekki hrifin af hákarlinum en fann út að hún vildi alveg borða hann, en því miður væri hún með ofnæmi fyrir hákarli og gæti ekki borðað hann.

Á þorrablótinu var ekki bara etið, það voru sungin gömul íslensk lög, börnin gerðu þorrablótskórónur og það var dansað og skemmt sér. Börnin sem áttu að fara heim um kl. 12 fengu að vera áfram til kl. 13 sem auðséð var að þeim fannst gaman.

Á Sæbóli, yngstu barna deildinni, tóku börnin virkan þátt en borðuðu heldur minna en af Þorramatnum en eldri börnin en vonandi eigum við eftir að hafa þau í nokkur ár í viðbót til að kenna þeim að meta þennan frábæra mat.   

 

 

Með kveðju frá Barnabóli

Þórunn Bernódusdóttir

Leikskólastjóri