Þrælerfiðar spurningar í Drekktu betur

Spurningarnar í drekktu betur á föstudagskvöldið voru þrælerfiðar og kvörtuðu og kveinuðu þátttakendur eins og þeir lifandi gátu. Sökudólgurinn var Finnur Kristinsson sem samdi spurningarnar en kona hans Guðbjörg Ólafsdóttir var hinn alvaldi spyrill og stóð sig með prýði.

Hér skal tekið dæmi um erfiðar spurningar. Hvaða fjöll erunákvæmlega í vesturátt frá Spákonufellshöfða? Það reyndust nú vera Balafjöll á Ströndum.

Spurt var hvað efsti hluti Árbakkafjalls héti. Svarið var Illviðrahnúkur.

Svo vandaðist nú málið ærlega er Guðbjörg varpaði þeirri spurningu fram, hversu langt væri að sigla frá tiltekinni borg í Suður-Kóreu um Súez-skurð og Miðjarðarhaf til Skagastrandar. Af miskunsemi sinni leyfði Guðbjörg að svara mætta annað hvort í kílómetrum eða mílum. Vegalengdin var að því er sérlegum fréttaritara minnir um 12.000 kílómetrar.

Við lá að þátttakendur fengju hjartaáfall við næstu spurningu. Hvaða nöfn má draga af þessum orðum: "Ógnarfjöldi, aleinn maður", "Ungur sveinn og dýr í skógi", Fer um geyminn, hægur, hraður" og "Hefur sárbeitt nef og klær"? Ekki var laust við að stöku viskustykki brynnu yfir við þessa spurningu. Svarið var þó einfalt, að minnsta kosti þegar það lá ljóst fyrir; Hermann, Björn, Kári og Örn!

SVo er ekki úr vegi að nefna bjórspurninguna, en hún var um William nokkurn Addis sem fann árið 1770 upp apparat sem allir nútímamenn nota daglega. Hvað skyldi það nú hafa verið? Svörin voru mörg, skeið, gaffall og jafnvel salerni. Rétt var svar var þó tannbursti. Þrjú lið höfðu þó þetta svar á takteinum.

Svo fóru nú leikar að Sigríður Stefánsdóttir og Halldór Ólafsson rétt mörðu sigur og fengu 14 stig og bjórkassann. Á eftir komu tvö lið sem fengu 13 stig hvort og voru ekki sátt við sinn hlut.

Til samanburðar má þess geta að yfirleitt hafa sigurliðin í Drekktu betur fengið frá 22 til 23 stig. Má af þessu sjá hversu strangar spurningarnar voru í þetta sinn. Hins vegar skemmtu menn sér afar vel enda leyfi til að draga dár að spyrli og lasta spurningar hans og var það leyfi nokkuð vel nýtt.

Næsti spyrill og höfundur spurninga verður Signý Richter.