Togarinn Arnar HU 1 - metveiði í Barentshafi

Togarinn Arnar HU 1 er á leið til heimahafnar úr Barentshafi með góðan afla. Veiðarnar gengu með afbrigðum vel og afli var reyndar svo góður að það var eingöngu hraði á vinnslunni sem stýrði því hve mikill afli var tekinn á hverjum sólarhring. Upphaflega var áætlað að togarinn kæmi til heimahafnar í ágústmánuði og túrinn gæti tekið um 40 daga. Þessi góðu aflabrögð hafa hins vegar leitt til þess að Arnar HU verður einungis 22 daga í túrnum þrátt fyrir rúmlega fjögurra daga siglingu hvora leið á miðin. Það tók því ekki nema um 13 sólarhringa að veiða 720 tonna kvóta sem skipið hafði í Barentshafi. Veiðin var því um 33 tonn á úthaldsdag en var í raun rúmlega 55 tonn á þá daga sem skipið var að veiðum. Aflaverðmæti skipsins er áætlað um 117 milljónir króna.